Sjö af ellefu ráðherrum í ríkisstjórninni kynntu á mánudaginn það sem framundan er í loftlagsmálum hér á landi.

Stórátak framundan í loftslagsmálum

Ríkisstjórnin hefur kynnt viðamikla aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Markmiðið er að dregið verði úr losun gróðurhúsalofttegunda og stuðlað að aukinni kolefnisbindingu þannig að Ísland geti staðið við markmið sín í loftslagsmálum. Alls verður 6,8 milljörðum króna varið til sérstakra aðgerða í loftslagsmálum á næstu fimm árum. Aðgerðaáætlunin samanstendur af 34 aðgerðum. Megináherslurnar eru tvær; orkuskipti, þar sem sérstaklega er horft til hraðrar rafvæðingar samgangna og átak í kolefnisbindingu þar sem skógrækt og landgræðsla gegna lykilhlutverki, auk þess sem markvisst verður dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda með endurheimt votlendis.

Verulega verður aukið við fjárfestingar og innviði vegna rafvæðingar í samgöngum en áætlað er að verja 1,5 milljarði króna til uppbyggingar innviða fyrir rafbíla, rafvæðingar hafna og fleiri aðgerða í orkuskiptum hér á landi á næstu fimm árum. Þá er ekki meðtalinn kostnaður við áframhaldandi ívilnanir fyrir rafbíla sem þegar eru meðal þeirra mestu sem þekkjast. Kolefnisgjald verður áfram hækkað og mörkuð sú stefna að frá og með árinu 2030 verði allir nýskráðir bílar loftslagsvænir sem þýðir að bannað verði að flytja inn hefðbundna bíla sem einungis eru knúnir dísil eða bensíni.

Önnur megináhersla í aðgerðaáætluninni er kolefnisbinding. Ráðist verður í umfangsmikið átak við endurheimt votlendis, ræktun birkiskóga og kjarrlendis, stöðvun jarðvegseyðingar og frekari landgræðslu og nýskógrækt. Um fjórum milljörðum króna verður varið til þessara aðgerða á næstu fimm árum. Áhersla er lögð á að fela félagasamtökum hlutverk, bændum og öðrum vörslumönnum lands.

Um 500 milljónum króna verður varið til nýsköpunar vegna loftslagsmála og verður Loftslagssjóður stofnaður til að halda utan um slík verkefni. Um 800 milljónum króna verður varið í margvíslegar aðgerðir, svo sem rannsóknir á súrnun sjávar og aðlögun að loftslagsbreytingum, alþjóðlegt starf og fræðslu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Elkem í fjörutíu ár

Framleiðsla kísiljárns á Grundartanga hófst 30. apríl 1979 og fagnar því Járnblendiverksmiðjan fjörutíu ára afmæli í næstu viku. Í Skessuhorni... Lesa meira