Lögregla gómaði mann eftir að minnsta kosti tvö innbrot á Snæfellsnesi

Lögreglan á Vesturlandi hafði síðdegis í gær hendur í hári karlmanns sem fyrr um daginn hafði brotist inn í að minnsta kosti tvö hús á Snæfellsnesi. Fyrst fór maðurinn inn í hús á Hellissandi og síðar í Grundarfirði. Í báðum tilfellum sást til mannsins og unnt var að gefa greinargóða lýsingu á honum og bílnum sem hann ók. Í kjölfarið var hægt að lýsa eftir Honda Jazz bifreið mannsins og bílnúmeri á fréttamiðlum. Tiltækt lið Lögreglunnar á Vesturlandi fór jafnframt á svæðið og fylgst var með öllum akstursleiðum frá byggðakjörnunum sem um ræðir. Síðdegis stöðvaði lögreglan svo för mannsins á móts við Vegamót eftir að hann hafði ekið Vatnaleiðina áleiðis suður. Maðurinn var færður til yfirheyrslu á Akranesi þar sem hann er í haldi. Hann er útlendingur, búsettur á höfuðborgarsvæðinu og hefur áður komist í kast við lögin.

Í bíl mannsins fannst eitthvað af skartgripum sem verið er að kanna hver á. Að sögn Jóns S Ólasonar yfirlögregluþjóns hjá LV eru starfsmenn embættisins nú í góðu sambandi við önnur lögregluembætti í landinu, en vera kann að maðurinn tengist fjölda innbrota sem framin hafa verið á norðan- og austanverðu landinu undanfarna daga, þar sem farið var inn í ólæst hús og peningum og skartgripum stolið. Lögregluembættin fara nú yfir gögn til að freista þess að finna út hvort þessi tilgreindi maður tengist þeim málum.

Jón S Ólason hvetur íbúa á Snæfellsnesi til að kanna hvort farið hafi verið inn í hús þeirra. Einkum að fólk kanni hvort allir skartgripir og peningar séu þar sem þeir eiga að vera. Ef fólk saknar einhvers á það strax að hafa samband við lögreglu í síma 444-0300. Loks hvetur Jón fólk til að læsa húsum sínum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Stangveiðar með drónum

Þegar blaðamaður Skessuhorns renndi niður Facebook í morgun rakst hann á athyglisverða auglýsingu. Þar auglýsti Suður-Afríska fyrirtækið Gannet búnað fyrir... Lesa meira