Ýsa á leið inn á vinnslulínu Ísfisks á Akranesi.

Ísfiskur vonast til að hefja vinnslu að nýju um næstu mánaðamót

Þessa dagana er unnið að því að flytja starfsemi fyrirtækisins Ísfisks hf. alfarið upp á Akranes frá Kópavogi. Sem kunnugt er keypti fyrirtækið bolfiskvinnsluhús HB Granda síðastliðið haust, auk hluta fiskvinnslubúnaðar. Vinnsla Ísfisks hófst síðan á Akranesi um miðjan febrúar, samhliða starfsemi fyrirtækisins í Kópavogi. Nú er húsnæði fyrirtækisins við Kársnesbraut í Kópavogi í söluferli og verið að undirbúa flutning á öllum búnaði upp á Akranes. „Vinnslunni í Kópavogi var lokað 6. júlí vegna sumarleyfa og þessara breytinga. Þá lokuðum við á Akranesi 20. júlí,“ segir Albert Svavarsson, framkvæmdastjóri Ísfisks, í samtali við Skessuhorn. Hann kveðst ekki geta sagt nákvæmlega til um hvenær flutningum verður lokið og hægt verði að hefja starfsemi fyrirtækisins að nýju á Akranesi. „Af þeim sökum þurftum við að segja upp starfsfólki bæði á Akranesi og í Kópavogi og er fólkið því án samninga sem stendur. Hins vegar hefur öllum eða flestum sem vilja verið boðið að sækja um hjá okkur áfram þegar staðan er orðin þannig að okkur lítist á að hefja vinnslu að nýju. Ég er búinn að gefa það út við starfsfólkið að það verði vonandi um mánaðamót ágúst og september, í síðasta lagi, en við vitum það ekki fyrir víst,“ segir hann. „Verkefni okkar núna er að brúa bilið þar til húsnæðið í Kópavogi selst. Ekki er komin lausn á því enn og því getum við ekki með fullri vissu sagt til um hvenær vinnsla hefst á Akranesi.“

 

Starfsemi alfarið á Akranesi

Albert tekur skýrt fram að stjórnendur fyrirtækisins séu ekki hættir við neitt, þvert á móti. „Eins og ég hef sagt starfsfólkinu á Akranesi þá verður vinnslan þar ekki deild innan fyrirtækisins, heldur verður Ísfiskur með alla sína starfsemi á Akranesi,“ segir Albert og kveðst bjartsýnn á að takist að brúa bilið og hægt verði að hefja starfsemina um næstu mánaðamót. „En á meðan eru þeir sem málið varðar, það er að segja starfsfólkið, í ákveðinni óvissu. Ég vona að þeirri óvissu verði eytt sem fyrst en ég veit ekki nákvæmlega hvenær. Við erum bjartsýnir á að þetta muni ganga upp. En hvort verði einhver seinkun umfram það sem við höfðum áætlanir um, þar held ég að geti brugðið til beggja vona og þá hugsanlega opnað eitthvað síðar. Það vonda við seinkun er að við höfum aðgang að afar góðu starfsfólki bæði á Akranesi og í Kópavogi. Ef við gefum þeim einhverjar óljósar upplýsingar þá fer fólk kannski bara eitthvað annað. Það viljum við ekki og ég er viss um að þau vilja það ekki heldur. Þess vegna munum við reyna að brúa þetta bil eins fljótt og vel og við getum,“ segir Albert að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Elkem í fjörutíu ár

Framleiðsla kísiljárns á Grundartanga hófst 30. apríl 1979 og fagnar því Járnblendiverksmiðjan fjörutíu ára afmæli í næstu viku. Í Skessuhorni... Lesa meira