Hér er horft yfir húsið við Borgarbraut 55 til vinstri og til hægri sést í gafl fjölbýlishússins sem nú er risið við Borgarbraut 57.

Starfsemin samrýmist ekki nýju deiliskipulagi

Með bréfi sem lögmaður Borgarbyggðar hefur ritað forsvarsmönnum Líflands annars vegar og Bifreiðaþjónustu Harðar hins vegar er þess krafist að starfsemi fyrirtækjanna verði hætt á Borgarbraut 55 í Borgarnesi þegar lóðarsamningur rennur út. Húsið skulu fyrirtækin láta rífa á sinn kostnað og skila lóðinni til sveitarfélagsins eigi síðar en 25. apríl 2019. Á lóðinni Borgarbraut 55 í Borgarnesi stendur eitt hús í eigu fyrrgreindra fyrirtækja sem skiptist í tvær aðskildar fasteignir. Starfsemi er í báðum húsunum; verslun Líflands, auk smurstöðvar og hjólbarðaverkstæðis. Húsið var upphaflega byggt sem trésmíðaverkstæði árið 1969 á grundvelli lóðarleigusamnings sem þáverandi eigendur gerðu til fimmtíu ára við Borgarneshrepp. Nú hefur nýtt deiliskipulag verið samþykkt fyrir lóðirnar Borgarbraut 55, 57 og 59 og samrýmist núverandi starfsemi fyrirtækjanna ekki skilmálum þess.

Þá hefur á grundvelli þessa nýja skipulags verið byggt hótel á lóðinni Borgarbraut 59 og sjö hæða fjölbýlishús á lóð númer 57. Var nýtingarhlutfall fjölbýlishúsalóðarinnar aukið verulega og húsið byggt þétt upp að lóðarmörkum þeirrar lóðar sem Hjólbarðaþjónusta Harðar hefur starfsemina sína, svo þétt að ekki er pláss að óbreyttu fyrir vegtengingu að bílastæðum í kjallara og á baklóð fjölbýlishússins nema að taka hluta lóðar verkstæðisins undir innkeyrslu. Rekstraraðilar í húsinu Borgarbraut 55 hyggjast taka til varna og mótmæla því hversu hart sveitarfélagið gengur fram í að gera þeim að hætta starfsemi á þessum stað og rífa mannvirkið. Munu þeir fara fram á mat á tjóni sem fyrirtækin munu verða fyrir og leita réttar síns fyrir dómstólum verði ekki komið til móts við þá af hálfu sveitarfélagsins.

Nánar er fjallað um málið í Skessuhorni sem kom út í dag.

Líkar þetta

Fleiri fréttir