Andlát – Guðný Baldvinsdóttir frá Grenjum

Guðný Baldvinsdóttir frá Grenjum á Mýrum lést laugardaginn 11. ágúst síðastliðinn, 104 ára að aldri. Guðný var fædd 18. apríl 1914. Náði hún hærri aldri en nokkur annar íbúi Borgarness, en næsthæstum aldri náði Herdís Einarsdóttir, sem dó árið 1965, þá 103 ára og 152 daga. Aðeins einn Borgfirðingur hefur orðið eldri en Guðný frá Grenjum. Það var Þórdís Þorkelsdóttir, Skagfirðingur að uppruna sem lengstum bjó í Fljótum, en flutti í Flókadal í Borgarfirði á efri árum þar sem hún bjó í skjóli dætra sinna sem þar bjuggu. Þórdís var 105 ára og 105 daga þegar hún lést, snemma árs 2001.

Guðný frá Grenjum var lengst af við afar góða heilsu. Hún fluttist um tíræðisaldurinn í Brákarhlíð en þrjátíu ár þar á undan bjó hún í húsi sínu við Böðvarsgötu í Borgarnesi, stundaði daglegar gönguferðir og var sjálfri sér næg á alla lund. Í viðtali sem tekið var við Guðnýju í Skessuhorni vegna aldar afmælisins 2014 kvaðst Guðný fyrst og fremst vera sveitamanneskja, þegar hún var beðin að lýsa sjálfri sér. Hún var fædd og uppalinn í sveit á Mýrum og bjó þar stærstan hluta ævi sinnar, að Grenjum í 32 ár og á Leirulæk sem ráðskona í 38 ár. Guðný var nægjusöm kona og hafi aldrei verið mikið fyrir það að eyða í óþarfa eða að öfundast út í það sem aðrir áttu eða fengu. Sjálf sagði hún það dyggðir sem hafi reynst henni gott vegarnesti í lífinu. Hún hafi ætíð viljað borga skatta sínar og skyldur og rifjaði upp fyrir blaðamanni að þá hafi henni nýverið verið bent á að þegar hún yrði 100 ára þyrfti hún ekki að greiða lengur fyrir akstur hjá ferðaþjónustu eldri borgara hjá Borgarbyggð. Þetta áleit hún fjarstæðu, enda væri hún engin ölmusumanneskja. Guðný ákvað því ótrauð að greiða sín fargjöld áfram þrátt fyrir að vera búinn að öðlast fríðindi sem fylgja því að hafa komast á aðra öldina í aldri.

Eftir að Guðný flutti á Brákarhlíð hélt hún áfram prjónaskap, gerði til að mynda fjölmarga tvíþumla belgvettlinga sem m.a. voru seldir á árlegum basar til stuðnings félagsstarfi íbúa. Guðný frá Grenjum var gegnheil persóna og sagði umbúðalaust sína skoðun á hlutunum. Hún var nægjusöm og frændrækin og uppskar þakklæti í samræmi við það.

 

Viðtal við Guðnýju 97 ára

Í jólablaði Skessuhorns 2011 var birt opnuviðtal sem Ingimundur Ingimundarson í Borgarnesi skráði. Heimsótti hann Guðnýju nokkrum sinnum og úr varð vandað viðtal við konu sem síst af öllu vildi trana sér fram. Vegna andláts Guðnýjar birtum við hér viðtal Ingimundar í heild sinni við Guðnýju, en þar er margan sögulegan fróðleik að finna:

 

“Ég tranaði mér aldrei framan í fólk”

Rætt við Guðnýju Baldvinsdóttur frá Grenjum sem 97 ára fer daglega í heimsóknir á dvalarheimilið og les fyrir gamla fólkið

 

Guðný Baldvinsdóttir, eða Guðný frá Grenjum eins og flestir kalla hana, var í fyrstu ekki auðfús að ræða við viðmælanda sinn. Sagðist ekki hafa frá neinu að segja ómenntuð konan og alls ekki til birtingar í blöðum. En sú afstaða linaðist og í ljós kom að hún hefur frá ýmsu að segja. “Ég tranaði mér aldrei framan í fólk og það fylgir mér. Núna er ég farin að tala við ókunnugt fólk þegar ég er komin á tíunda tuginn og tala tóma vitleysu,” sagði hún kankvís á svipinn þegar við höfðum ræðst við um stund. Fljótlega kemur í ljós að þessi 97 ára gamla kona er skarpgreind og hefur gott minni. Guðný er fædd á Háfelli í Hvítársíðu 18. apríl 1914 en flyst ásamt fólki sínu, þá reifabarn, vestur að Grenjum. Hún man vel atburði frá æsku sinni, segir frá í meitluðum setningum. Heldur dregur hún úr sínum þætti er spurt er um æviverkið, en sú eðlislæga hlédrægni er alls ekki svo óalgeng hjá fólki sem komið er á hennar aldur.

 

Allt hrundi 1930

Foreldrar Guðnýjar voru Baldvin Jónsson fæddur í Skáneyjarkoti í Reykholtsdal 1874, dáinn 1. júlí 1964, og Benónýja Þiðriksdóttir fædd á Háafelli í Hvítársíðu árið 1872, dáin 8. febrúar 1969. Um þau hefur Guðný þetta að segja: „Þau voru fátækt fólk og fengu ekki jarðnæði. Voru í húsmennsku í mörg ár þangað til að þau komu að Grenjum í Álftaneshreppi. Þau voru að flækjast sitt á hvað eitt og tvö ár í senn á sama stað, ýmist í Lundarreykjadal, Hálsasveit eða Reykholtsdal. Þau voru að leita að jarðnæði til að búa á. Ég held að ábúð þeirra á Grenjum hafi komið þannig til að Bjarni Daðason frá Guðnabakka í Stafholtstungum sem bjó á Uppsölum í Hálsasveit, og sennilega verið í hreppsnefnd, lánaði séra Einari á Borg 1200 krónur. Ég held að það hafi verið í gegnum það að Grenjarnir losnuðu. Pabbi borgaði leigu til prestsins á Borg allt þar til hann kaupir jörðina vorið 1929. Það var alltaf frekar þröngur fjárhagur en í sæmilegu jafnvægi fyrir 1930, en þá hrundi allt.”

 

Elstu systkinin í fóstur

“Við systkinin vorum átta og fjögur elstu voru tekin í fóstur fljótlega eftir fæðingu af kunningjum foreldra minna vegna húsnæðisskorts og fátækar. Eiríkur var elstur fæddur 1906 á Signýjarstöðum í Hálsasveit. Hann ólst upp á Norður Reykjum, menntaði sig í Svíþjóð og var kennari í Austurbæjarskólanum í Reykjavík. Helga var fædd 1907 í Gröf í Lundarreykjadal en ólst upp í Hægindi. Þar bjó einhleypur maður sem hafði ráðskonu. Hann ól Helgu upp og gaf henni síðar Hægindi og þar var hún húsfreyja. Guðjón var fæddur 1908 á Refsstöðum í Hálsasveit. Hann ólst upp á Barði sem var smábýli í Grímsstaðalandi í Reykholtsdal. Hann vann lengi hjá Skattstjóranum í Reykjavík. Þuríður fæddist í Hægindi 1910, ólst upp á Auðsstöðum í Hálsasveit en bjó austur á Flúðum. Fjögur yngstu börnin ólust öll upp á Grenjum. Þiðrik fæddist í Hægindi 1911 en hann bjó á Grenjum frá 1946 til 1960. Magnús fæddist að Signýjarstöðum 1913 en var múrari í Reykjavík. Guðný fæddist á Háafelli 1914 og Ólöf var yngst, fæddist að Grenjum 1916. Hún bjó á Akureyri.

Ég er búin að fylgja þeim öllum til grafar,” segir Guðný að upptalningu lokinni með hlýju og væntumþykju í röddinni.

 

Flutt á hestum að Grenjum

“Við vorum flutt lítil á hestum frá Háafelli vestur að Grenjum á fardögum 1914. Þiðrik þriggja ára, Magnús eins árs og ég sex vikna,” sagði Guðný um ferðalagið til uppeldisstöðvanna. “Það þættu harðir flutningar núna að fara með reifað sex vikna barn á hesti,“ bætir hún við. Húsið á Grenjum var timburhús byggt fyrir aldamótin 1900 og var farið að láta á sjá. Skiptist það í búr, eldhús og stofu þar sem öll fjölskyldan svaf.“ Aðstaðan batnaði ekki fyrr en bræðurnir Þiðrik og Magnús byggðu nýtt hús árið 1938. Guðný segir að það að fá rennandi vatn og hreinlætistæki hafi verið mestu viðbrigðin. “Að fá sjálfrennandi vatn í krana og vatnssalerni voru stórkostlegar breytingar. Áður þurfti að sækja allt vatn út í brunn.“

Guðný segir að helsti maturinn hafi verið súrt slátur og saltkjöt en lítið hafi verið um fisk. Ef um hann var að ræða var það saltfiskur. Oft voru hafðar baunir og saltkjöt á sunnudögum og hangikjöt um jól. Kandís var hafður með kaffinu daglega en rúsínur og harðfiskur var sælgæti þess tíma. Fatnaðurinn var að mestu heimaunninn; sokkar, nærföt og peysa úr ull. En eitthvað efni þurfti í buxur og pils. Í þá daga þótti ekki heppilegt að kvenfólk gengi í buxum. “Ég sá fyrst konur sem komu úr Reykjavík um 1920 í síðbuxum. Mamma fór í peysuföt ef það kom fyrir að hún fór á bæi eða til kirkju. Hún átti sem kallað var þokkalega dagtreyju til að fara í á sunnudögum. Pabbi átti jakkaföt. Fólk var ekki með fullar kirnur af fötum í þá tíð.”

„Alltaf var lesið upphátt á kvöldin ef einhverjar bækur voru til að lesa. Baldvin faðir minn las húslestur úr húslestrarbók séra Jóns Bjarnasonar og passíusálmarnir voru alltaf lesnir.“  Þegar Guðný er spurð hvernig hefði verið að alast upp á Grenjum svarar hún: „Ætli það hafi ekki verið eins og þá gerðist. Það var ekki mikið um gestakomur. En það var afskaplega lengi að það komu alltaf einhverjir kunningjar pabba og mömmu á hverju ári.”

 

Leikið með leggi og skeljar

Hverjir vor helstu leikir þeirra systkina? “Við lékum okkur að hornum, leggjum og kjálkum og svo höfðum við alltaf svolítið af skeljum. Við settum upp bú og höfðum leggina og skeljarnar fyrir skepnur. Við söfnuðum einnig myndum utan af export kaffi og það voru myndir af kaffikvörnum og einhverju fleiru. Ég man að það kom maður til að skjóta rjúpur og okkur fannst fengur að fá pakkana undan skotunum.” Systkinin spiluðu á spil eftir að þau tóku að stálpast og var þá helst spiluð vist. Ekki var mikið um útileiki að vetrinum því hlífðarfatnaður var af skornum skammti. Guðný man eftir sleðagarmi og einhvern tímann fengu strákarnir skauta. En hún reyndi aldrei að renna sér á skautum.

“Samkomur voru engar og við fórum ekki langt,” segir Guðný. „Það var farið að Grímsstöðum stöku sinnum. Samgangur til að hitta jafnaldra var helst að Litla – Fjalli. Krakkarnir þaðan komu til okkar einu sinni á ári og við fórum einu sinni að Litla – Fjalli. En það var ekki nema að áin væri fær eða á ís sem var ekki oft. Það voru fimm systkini þar og á svipuðum aldri og við.” Guðný segist ekki hafa hitt eldri systkini sín oft en þau komu stundum í heimsókn og héldu tengslum við foreldra sína.

 

Byrjaði snemma að vinna

Um vinnu sína á heimilinu segir Guðný: “Það var reynt að nota mann til snúninga eins fljótt og hægt var og síðan jókst vinnan smám saman. Mér var kennt að prjóna fimm ára.”

Aðspurð um tíðarfarið kveðst Guðný muna eftir miklum snjóavetri 1920 og sumarið eftir lá við að yrði heylaust. „Ég man eftir því að reynt var að reka skepnurnar í læk eða lind sem var á túninu. En það varð að moka margar tröppur niður að vatnsbólinu og hafa hlera yfir því. Moka varð af húsþökunum svo þau sliguðust ekki undan farginu. Það gat verið snjóakista að Grenjum. Sérstaklega í suðvestan átt. En það voru stundum góðir vetur.

Það þurfti því að gæta ánna fyrir sauðburðinn og sitja hjá svo þær slyppu ekki. Einnig þurfti að vaka yfir túninu á vorin svo féð færi ekki í það. Ásóknin jókst eftir að girðing kom meðfram fjallinu og féð komst ekki þangað óáreitt. Mikið var um að aðkomukindur kæmu í túnið eftir að fjallgirðingin var girt. Túnið var svo gert fjárhelt rétt fyrir 1930 eftir að pabbi keypti jörðina.“

 

Nafnið dregið af hávaða frá ánni

Grenjar eru landnámsjörð og er land jarðarinnar líklega um níu kílómetra langt. Grímsstaðir áttu reyndar spildu innan við Grenjaland inn á dal sem kallað var. Grenjar áttu land nálægt Heiðarvaði í Langá. Þar lá póstleiðin milli Reykjavíkur og Stykkishólms. „Ég man eftir því þegar ég var barn að verið var að rökræða um nafnið á bænum. Ég held að séra Einar á Borg hafi hallast að því að nafnið væri komið frá ánni. Hún er straumhörð og mikið um flúðir. Í sunnanátt var stundum hávaði í ánni og sumir kölluðu það grenjanda. Af því væri nafnið dregið. Aðrir héldu því fram að nafnið kæmi til af því að það hefðu verið greni í landareigninni.”

Ef farið er upp í hlíðina fyrir ofan bæinn á Grenjum er afar víðsýnt. Þar sést allur fjallahringurinn allt suður frá Reykjanesi og vestur að Snæfellsjökli og vel sést upp í uppsveitir Borgarfjarðar; Stafholtstungur og Reykholtsdal.

 

Varð læs sex ára

Guðný var spurð hvernig skólagöngu hennar hefði verið háttað. “Foreldrar mínir kenndu mér að lesa, ætli það hafi ekki verið aðallega pabbi. Ég var ekkert mjög ónýt með það og var orðin læs sex ára. Farkennarar komu að Grenjum í þrjá vetur einn mánuð á vetri eftir áramótin. Börnin frá hinum bæjunum komu þangað. Bræður mínir fóru svo svolítið í farskóla niður að Háhóli. Systkinin þar voru á svipuðum aldri og Grenjabörn. Kennararnir voru frá Hofsstöðum. Hjá þeim lærðum við lestur, skrift, reikning, biblíusögur, landafræði, náttúrufræði og Íslandssögu sem Jónas frá Hriflu skrifaði.” Guðný sagðist eiga bækurnar frá þessum tíma enn. Þá höfðu þau bækur til að lesa frá lestrarfélaginu í Álftaneshreppi sem látnar voru ganga á milli bæja. Seinna sameinuðust Álftanes- og Hraunhreppar um kennara, sennilega hafa börnin þá verið orðin færri.

 

Lögðu fararskjótana inn í mötuneytið

Eftirfarandi frásögn Guðnýjar lýsir vel lífsbaráttunni á þessum tíma í uppvexti hennar og hvað leggja þurfti á sig til að komast í skóla í þá daga.

“Eiríkur og Guðjón bræður mínir fóru árið 1926 á hestum úr Reykholtsdalnum alla leið norður að Laugum í Þingeyjarsýslu í skóla. Þeir voru níu daga á leiðinni. Þetta var sennilega í kringum mánaðamótin september og október. Þeir lentu í snjó og öskubyl á heiðunum. Þá voru óbrúaðar ár á leiðinni, til dæmis Víðidalsá og einhverjar fleiri. Þeir voru þrír saman. Með þeim var maður frá Steinum í Stafholtstungum sem hafði verið á Laugum veturinn áður. Bræður mínir voru með þrjá hesta, einn undir töskurnar og trússið. Þeir komu norður einhverjum dögum áður en skólinn var settur. Gátu þeir látið hestana upp í meðgjöf með sér. Þeim var slátrað og lagðir inn í mötuneytið. Þannig var nýtni fólksins í gamla daga.

Þá var ekki bíll í hvers manns eigu og bílar ekki farnir að fara norður á Akureyri. Ég hef stundum hugsað um það að einhver nútíma manneskjan myndi setja upp svip. Væri ekki tilbúin að borða kjöt af hrossum sem væru búin að vera í níu daga vinnu og erfiðleikum, eins og þessi hross bræðra minna.”

 

Samgöngur

“Þegar ég man eftir mér var komin brautin frá Langárbrú og vegur þvert yfir Álftaneshrepp og Hraunhrepp. Ég man ekki hversu langt vestur. Pósturinn var farinn að fara þessa leið. En Stykkishólmsprestur fór hjá Grísatungu og vestur. Kallaður Heiðarvegur hinn nyrðri. Það var orðið vagnfært heim að Grenjum áður en ég fór þaðan. Áður var klöngrast meðfram fjallinu. Ég man svo langt að það var ekki einu sinni til hestvagn heima. Húsið var byggt 1938 og sementið var flutt á klakk.”

Guðný segir að í þá daga hafi allt verið unnið með höndunum. Slegið með orfi og ljá, rakað með hrífu, bundið votaband og reitt heim á hestum. Fyrsta sláttuvélin sem hún man eftir kom að Lambastöðum um 1920. Það var víða á Mýrunum sem ekki var fært með hross og þeir sem áttu heima við sjóinn fóru á bátum í kaupstað í Borgarnes. Annars var farið upp frá sjónum og upp með Langá.

 

Á Borg fyrir fermingu

Presturinn á Borg, séra Einar Friðgeirsson, vildi fá Guðnýju til sín fyrir ferminguna. Hann bar því við að það væri svo langt fyrir hana að fara til spurninga niður í Álftártungu. Bætti hann því við að hún væri svo lítið búin að læra. En Guðný var ekki á sama máli.

“Það er ótuktargangur í mér að segja að hann fékk mig bara til þess að vinna. Hann skrökvaði þessu að pabba. Ég var komin út í áttunda kafla í kverinu. Ég var látin skúra stigana og þrífa kompurnar með frúnni, en inn í þær snjóaði. Þetta var í gamla húsinu á Borg. Presturinn hlýddi mér yfir tvisvar eða þrisvar en ég var búin að læra kverið þegar ég kom til hans. Mér gekk ekkert verr að læra kverið en þessum fjórtán krökkum sem þar voru til spurninga og ég var látin hlusta á.”

Þegar Guðný var á Borg var engin kirkja í Borgarnesi og flest barnanna komu þaðan. Þá fór Guðný í Borgarnes í fyrsta sinn. Hún segist hafa heyrt að séra Einar hafi verið mikill ræðumaður og góður prestur en kaupmennskan réði þegar hann var ekki í hempunni. Hann hafi kappkostað að eignast jarðirnar sem áttu land að Langá. Hann tók veiðiréttinn undan jörðunum og seldi hann enskum auðkýfingi.

Árgangur Guðnýjar voru síðustu börnin sem séra Einar fermdi. Guðný fermdist í Álftartungu ásamt þremur öðrum. Vorið eftir, árið 1929, féll séra Einar niður örendur þegar hann ætlaði að fara að ferma, en þá hafði hann verið prestur á Borg í 41 ár. Á þessum tíma var áberandi hvað presturinn var mikið hærra settur en þeir sem hann var að uppfræða. “Það var sérstaklega áberandi hjá konunni hans. Enda var hún alin upp á Bessastöðum hjá Grími Thomsen,” segir Guðný með áherslu.

 

Ferð um uppsveitir með móður sinni

Guðný segist hafa farið í fyrsta sinn út fyrir Álftaneshreppinn árið 1926, þá 12 ára gömul. Hún fór þá í heimsókn ásamt fleirum að Helgastöðum í Hraunhreppi þar sem frændi hennar bjó. En fyrstu lengri ferðina fór hún með Benónýju móður sinni árið 1929. “Það var eftirminnileg ferð fyrir 15 ára ungling sem aldrei hafði farið neitt,” rifjar hún upp. Ferðin var farin á hestum, en hún hafi verið lítið fyrir hesta. „Hrossið hafði þann gang sem það vildi. Það réði meira yfir mér en ég yfir því.”

Tilgangur ferðarinnar var m.a. að heimsækja Guðrúnu móðurömmu Guðnýjar sem var á Gilsbakka. Ferðin tók sex daga og það var frændfólk á hverjum bæ sem þær komu á. Farið var yfir Langá rétt fyrir neðan Grenja áfram austur og komið á veginn hjá Svignaskarði. Síðan fram Stafholtstungur yfir Hvítá við Kljáfoss og stoppað fyrst á Hurðarbaki. Þá var gist á Kjalvararstöðum, haldið síðan fram sunnanverðan Reykholtsdalinn. Næstu nótt var gist að Auðsstöðum. Þar var Þuríður systir Guðnýjar uppalin. Riðið var þvert yfir Hálsasveitina og næst gist í Stóra – Ási. Þar bjó Kolbeinn Guðmundsson en hann og Benónýja voru bræðrabörn. Hann hafði stundum verið á vorin á Háafelli sem barn. „Mamma hélt ósköp upp á þennan karl. Ári áður hafði hann raflýst með heimarafstöð einn fyrstur Borgfirðinga. Hann sýndi okkur það allt og var ósköp ánægður yfir þessu, karlanginn.” Þaðan fóru mæðgurnar að Gilsbakka og voru þar tvær nætur. Þetta var um mánaðamótin júní-júlí á þeim tíma sem Reykdælingar voru að reka féð fram á Arnarvatnsheiði. Rekstrarnir blöstu við frá hlaðinu á Gilsbakka. Síðan fóru þær mæðgur niður Hvítársíðu og Guðný rifjar upp að það hafi verið sautján girðingahlið á leiðinni frá Gilsbakka og niður að Síðumúlaveggjum. En fara þurfti gegnum túnin á mörgum bæjum. Þær komu við á Haukagili og gistu á Háafelli. Skruppu með ferjunni yfir að Norður Reykjum en þar voru nákomnir kunningjar sem ólu upp Eirík bróður Guðnýjar. Sjötta daginn héldu þær frá Háafelli heim að Grenjum en komu við á Fróðastöðum og Síðumúlaveggjum.

 

Ráðskona í 38 ár

“Ég er á Grenjum öll mín unglingsár og fram á fullorðinsár. Ég var þó í smá tíma í Straumfirði þegar ég var 15 ára. Þar lærði ég að hreinsa dún. Ég var þar í sex vikur og fékk svolítið kaup. Ég var einnig dálítinn tíma á Hvítsstöðum, sem eru komnir í eyði núna. Það var næsti bær við Grenja ef farið var niður með Langánni í átt til sjávar. Það voru um níu kílómetrar á milli bæjanna. Fólkið á Hvítsstöðum flutti 1940 að Krossnesi, en ég var á Hvítsstöðum þegar Jóhannes Magnús Þórðarson fæddist 1938.”

Guðný fer að heiman 1946 að Leirulæk og gerðist þar ráðskona 32 ára. Þar var hún í 38 ár þangað til hún flutti í Borgarnes. Þar bjuggu bræðurnir Jóhann og Helgi Guðjónssynir. Jóhann var fæddur 1890 en Helgi 1901. “Ráðskonan á Leirulæk dó og ég var beðin að taka það starf að mér. Ég sá um inniverkin og mjólkaði kýrnar.”

Eftir að Guðný kom að Leirulæk sá hún muninn á veðurfarinu. “Það gat verið steitings norðan hríð uppi á Grenjum, sem náði ekki nema hálfa leið niður að Hvítsstöðum. Bærinn er svo nálægt fjallinu. En það var allt annað veður niður á Leirulæk, en bærinn er niður við sjó.“

 

Jóhann missir heilsuna

Jóhann bóndi varð fyrir því að tapa minninu. Hægfara heilablæðing sagði dánarvottorðið. Guðný segir að síðustu árin hans hafi verið erfiður tími. “Hann mundi ekkert og vissi ekki hvort var nótt eða dagur, eða hvort hann var búinn að borða. Hann var svo léttur á fæti og kvikur og erfitt að passa hann. Það verður eitthvað eftir í þessu fólki sem tapar minninu, eitthvað sem það hafði á sínum mestu manndóms árum. Hann var til dæmis alltaf að reka féð frá sjónum þótt búið væri að girða.” Guðný varð af þeim sökum stundum að leita að Jóhanni. En þótt hann hlypi eitthvað kom hann alltaf heim aftur. “Það voru þrjú ár sem var töluvart erfitt að passa hann og alltaf versnaði það. Jóhann var aðeins rúmliggjandi í þrettán daga. Hann var búinn að biðja bróður sinn að láta sig ekki á sjúkrahús. Svo dó hann í rúminu sínu í september1979.”

Seinna missti Helgi bóndi heilsuna einnig og missti hann líka minnið eins og bróðir hans. “Við fluttum í Borgarnes árið 1984. Helgi fór á dvalarheimilið, en ég keypti mér þessa íbúð hér á Böðvarsgötunni og hef alltaf búið hér síðan. Helgi var ekki nema tæpt ár á dvalarheimilinu. Þá datt hann inni í herberginu sínu og lærbrotnaði. Hann var fluttur á Akranes og þar dó hann eftir rúmt ár,“ segir Guðný.

 

Naut þess að vera í sveit

Þegar Guðný er spurð að því hvort hún hafi notið þess að vera í sveit svarar hún: “Ég þekkti ekkert annað. Mér fannst gaman að umgangast dýrin og kýrnar voru vinir mínir og þær umgekkst ég meira en kindurnar. Ég hjálpaði til við að reka féð inn haust og vor og smalaði, en sinnti kúnum daglega. Skepnurnar voru ekkert hræddar við mig. Ég talaði við kýrnar og klappaði þeim. Ég hef heyrt það sagt að nytin getur jafnvel hækkað í þeim við slík atlot. Á Leirulæk voru yfirleitt 12-14 mjólkandi kýr.

Ég var með tvær bróðurdætur mínar á sumrin aðallega til snúninga. Arndísi elstu dóttir Magnúsar bróður míns og Guðnýju systir hennar sem seinna varð húsfreyja á Krossnesi. Arndís byrjaði strax að vera á Grenjum í minni umsjá þegar hún var fjögurra ára. Hún fylgdi mér svo þegar ég fór á Leirulæk öll sumur þangað til hún varð 17 ára. Hún er búin að vera í Ástralíu síðan 1980. Dóttir hennar var tekin við á Leirulæk og búin að vera nokkur sumur mjög efnileg stelpa. Ég sá mikið eftir þegar þau fóru. Guðný var hjá mér níu sumur og svo giftist hún að Krossnesi, blessunin.”

 

Formaður kvenfélagsins í átta ár

Kvenfélag Álftaneshrepps var stofnað 1962 á Leirulæk. Guðný segir að Ingibjörg á Hofsstöðum hafi haft forgöngu um stofnun félagsins og verið formaður í eitt ár. Ragnheiður Ólafsdóttir úr Borgarnesi og Ingveldur Guðjónsdóttir í Rauðanesi komu til að stofna félagið. Þegar hún var spurð hvort hún hafi verið virk í félaginu svarar hún: “Já, ég var nokkur ár í því, átta ár sem formaður. Það er eins með það félag og öll önnur, að það er ekki sama hvort fólk er að ganga í félag eða hvort það ætlar að starfa í því. Þær voru nú dálítið virkar gömlu konurnar sem gengu í félagið. Það voru margar eldri konur sem gengu í það við stofnun þess.” Margt af konunum hafði Guðný ekki séð fyrr því samgöngur voru lengi mjög erfiðar í hreppnum en um þetta leyti fór vegurinn að koma.

Ungmennafélagið var einnig dálítið virkt en hún segist ekki hafa starfað mikið í því. Ekkert samkomuhús var til í Álftaneshreppi fyrr en Bjarni Ásgeirsson þingmaður gaf ungmennafélaginu bragga. En það þurfti að sækja hann suður að Reykjum í Mosfellssveit, rífa hann og flytja vestur og setja hann upp aftur. Síðar var Lyngbrekka byggð á þeim stað.

Fljótlega eftir að kvenfélagið var stofnað var farið að halda samkomur í bragganum milli jóla og nýárs. “Auðvitað vorum við allar þar. Við skiptum á milli okkur að baka og reyna að stjórna samkomunni. Síðan höfðum við sumarmála skemmtun í nokkur ár kvenfélagið og ungmennafélagið saman. Félögum úr næstu hreppum, Hraunhreppi og Borgarhreppi var boðið. Þessar samkomur hafa eiginlega haldist á hverju ári. En seinna fóru þær að vera sitt á hverjum staðnum. Ég held að við Álfthreppingar höfum byrjað. Á fyrstu sumarmála skemmtuninni sem við héldum var Norðdælingum einnig boðið. Sú skemmtun var haldin um sumarmál eins og nafnið gefur til kynna. Þar var upplestur, leikþættir, veitingar og endað með dansi.“ Seinna fóru félögin að vera með leikþætti til skemmtunar. Það voru til leikþættir hjá ungmennafélaginu Agli Skallagrímssyni sem var búið að starfa lengi. Guðný tók þátt í leikstarfinu og lék þar meðal annar kvensköss.

Kvenfélagskonur ýttu á að rafmagnið kæmi í sveitina. Meðan Guðný var formaður fór hún ásamt formanni kvenfélagsins í Hraunhreppi, Ingibjörgu Jóhannsdóttir á Ökrum og fleirum, til Reykjavíkur til að knýja á um að rafmagn yrði lagt í Álftanes- og Hraunhrepp. “Þá voru lampar og olíutýrur aðallega notaðar, en á nokkrum bæjum voru komnir ljósamótorar til að knýja mjaltavélar og til lýsingar. En það var ekki svo mikið rafmagn að hægt væri að nota það til eldunar. Ég fór til dæmis ekki að elda við veiturafmagn fyrr en árið 1974.”

 

Systurnar hittust aðeins einu sinni saman

Guðný hélt alltaf tengslum við systkini sín, sérstaklega þau sem hún ólst upp með. Minni tengsl voru við þau eldri. Þiðrik bróðir hennar kom t.d. til hennar á hverjum morgni eftir að hún flutti í Borgarnes meðan hann hélt heilsu. Systurnar hittust aðeins einu sinni allar. Frumkvæðið að því átti Sólrún Konráðsdóttir dóttir Þuríðar. Þær hittust að Hægindi í Reykholtsdal. Þar var myndin af þeim tekin sem fylgir þessari grein. Það var ómetanleg stund fyrir þær allar. En Guðný var búin að hitta þær áður sitt í hverju lagi. Hún segist hafa farið tuttugu ár í röð norður til Akureyrar til að hitta Ólöfu systur sína.

 

Einangrast ekki í Borgarnesi

Þegar Guðný flutti frá Leirulæk keypti hún 62 fermetra kjallaraíbúð að Böðvarsgötu 1 í Borgarnesi af Grétari Ingimundarsyni. Hún var spurð hvort hún hefði ekki verið hrædd um að einangrast í nýju umhverfi þar sem hún þekkti fáa. Því svarar hún: ”Ég hugsaði ekkert út í það. Ég hugsaði mér bara að una.” Hún segir að Grétar hefði sagt sér að hún yrði að fara út á meðal fólks. Það hefur hún svo sannarlega gert. “Annan veturinn sem ég var hérna var ég rúma tvo mánuði hjá Jóni Snorrasyni frá Laxfossi. Hann bjó í húsinu þar sem elsta símstöðin var. Ég fór til þeirra hjóna og var hjá honum meðan hún Fríða fór til Akureyrar að fá liðskipti. Hann var 91 árs gamall og búinn að fá áföll en hélt fullu ráði, en hafði orðið frekar litla sjón. Þar var mjög gestkvæmt. Jón sagði reyndar að þar kæmi aldrei neinn. En það var aðeins einu sinni sem ekki kom einhver í miðdegiskaffi.”

Guðný hefur verið virk í starfi aldraðra og eftir að hún flutti í Borgarnes fór hún að ferðast með eldri borgurum. Með þeim hefur hún meðal annars komist út fyrir landssteinana til Færeyja. Hún hafði orð á því að Sæmundur Sigmundsson hefði boðið eldri borgurum í dagsferð síðastliðin rúmlega 20 árin. Fannst henni það mikill rausnarskapur af hans hálfu.

 

Alltaf gangandi

Guðný hefur farið allra sinna ferða innan Borgarness gangandi. En fyrir u.þ.b. ári fékk hún göngugrind. Það kom þannig til að hún féll endilöng á gangstétt. Sagðist hafa gleymt sér augnablik. “Þá fékk ég þessa grind til þess að geta haldið áfram að rása um göturnar,” eins og hún orðar það. Síðastliðið vor datt hún og handleggsbrotnaði og gat um tíma ekki notað grindina. Í stað hennar notaði hún staf til þess að geta haldið ferðum sínum áfram. Um uppgjöf er ekki að ræða. Hún segist auðvitað ekki vera eins styrk og ung manneskja en alltaf haft góða heilsu.

Guðný var spurð að því hvort hún hefði tekið bílpróf. “Nei,“ svaraði hún. „Ég var einu sinni að hugsa mér að fá mér bíl þegar ég var á Leirulæk. Það var stuttu eftir að jepparnir fóru að koma. En ég sá að ég myndi ekki ferðast neitt að ráði. Ef fólk lærir á bíl þarf að aka dálítið til að ná valdi á hæfni til að vera viss um að aka. Það er eins og með allt annað sem lært er, fólk nær því ekki nema æfa það dálítið. Þá hætti ég við.”

Guðný lætur ekki aldurinn aftra sér frá að gera það sem henni hugnast. Hún er með lítinn kartöflugarð heima við hús. Þar setti hún niður tíu kíló af kartöflum í vor en sagði að uppskeran hefði verið með rýrara móti þetta árið.

Guðný fylgist vel með en segist ekki sækja fundi í Borgarnesi að jafnaði. ”En ég fór á fundinn þegar mjólkursamlagið var lagt niður. Einnig þegar Sparisjóðurinn var komin á hausinn.” Hún sagðist þá hafa orðið býsna ergileg eins og margir gamlir Borgfirðingar. Það hefði verið mikil fjarstæða. Sagði að ef kosin væri stjórn eigi allir að hafa sama atkvæðisrétt. Framkvæmdastjórinn eigi ekki að ráða einn. “Þessi útþenslustefna og einkaframtak hefur orðið of mikils ráðandi.”

 

Saumar jólakortin

“Ég lærði að prjóna fimm ára en hef sennilega verið tólf ára þegar ég lærði að hekla,” svaraði Guðný þegar spurt var um hannyrðir. Hún hefur prjónað mikið og í mörg ár hefur hún unnið hluti sem hún hefur sett á basarinn hjá dvalarheimilinu. Síðast en ekki síst má nefna að í mörg ár hefur Guðný saumað jólakortin sem hún sendir vinum og vandamönnum. Hún segist hafa verið í félagsstarfi aldraða alla vetur síðan hún kom í Borgarnes og lært þar ýmislegt, “en aðallega til vera með fólkinu.”

 

Daglega á dvalarheimilið

Guðný hefur lengi farið nær daglega á dvalarheimilið. Meðan Helgi frá Leirulæk dvaldist þar kom hún þangað daglega. Hún heimsótti einnig Helgu systur sína frá Hægindi meðan hún dvaldi á DAB og einnig Bjarneyju mágkonu sína og fleiri. Núna heimsækir hún frænda sinn Friðjón frá Helgastöðum á hverjum degi og les fyrir hann. Þau eru bræðrabörn, hann er 14 árum yngri. Hún kenndi Friðjóni að lesa á Grenjum þegar hann var níu ára. En þá dvaldi hann þar í nokkrar vikur. Þá var skólaskylda ekki fyrr en um tíu ára aldurinn. Þegar minnst er á lesturinn við Guðnýju svarar hún: “Mér finnst það ekki til að gera orð á. Ég er búin að þekkja Friðjón frá því að hann fæddist og milli Helgastaða og Grenja voru alltaf mikil tengsl.”

Guðný hefur ætíð borið hag Dvalarheimilisins fyrir brjósti. Þegar hún var spurð að því hvort hún gæti hugsað sér að fara þangað til að búa, svarar hún: “Já, þegar ég er orðin svo rugluð að ég geti ekki eldað handa mér, þá verð ég að fara þangað,” svarar hún og bætti við: ”Ef fólk tapar minninu er hættulegt að vera eitt.” Hún segist alls ekki kvíða því að fara á dvalarheimilið til búsetu. ”Ég er búin að fara þangað á hverjum degi í a.m.k. 12 ár nema á mánudögum, en þá kemur heimilishjálpin mín.”

Lokaspurningin til Guðnýjar Baldvinsdóttur frá Grenjum var hvað hún vildi helst vera ef hún væri ung kona í dag. Hún hugsaði sig um og segir svo: “Ég hefði auðvitað viljað fara í skóla og læra eitthvað.”

 

-Viðtal þetta birtist í jólablaði Skessuhorns 2011, þegar Guðný var 97 ára.-

Guðný Baldvinsdóttir.

Guðný á Sauðamessu haustið 2010.

“Þessi útþenslustefna og einkaframtak hefur orðið of mikils ráðandi,” segir Guðný um afdrif mjólkursamlags og sparisjóðs.

Guðný á 95 ára afmælinu.

Þessi mynd var tekin af þeim systrum fjórum þegar þær komu saman í Hægindi. Það merkilega við þessa mynd er að þetta var í eina skiptið sem þær hittust allar systurnar í einu á lífsleiðinni. Frá vinstri: Helga, Þuríður, Guðný og Ólöf Baldvinsdætur. Ljósm. Sólrún Konráðsdóttir.

Grenjar í Álftaneshreppi um 1990. Ljósm. Mats Wibe Lund.

Guðný með þremur frændsystkinum sínum um 2010. F.v. Vigfús Pétursson og Sólrún Konráðsdóttir í Hægindi, Guðný og Rebekka Þiðriksdóttir.

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir