Vindmylla. Myndin tengist fréttinni ekki með beinum hætti. Ljósm. úr safni.

Veita leyfi fyrir vindmöstrum

Umsókn Storm orku ehf. um uppsetningu á þremur möstrum til vindmælinga að Hróðnýjarstöðum var til umfjöllunar á síðasta fundi sveitarstjórnar Dalabyggðar. Umhverfis- og skipulagsnefnd hafði áður tekið jákvætt í erindið en kallað eftir betri gögnum, s.s. uppdrætti með nákvæmri staðsetningum vegslóða og mastra.

Sveitarstjórn samþykkti með fjórum atkvæðum gegn þremur að veita Storm orku ehf. stöðuleyfi til að reisa þrjú rannsóknarmöstur í landi Hróðnýjarstaða. Leyfið er veitt til tveggja ára. Forsvarsmenn fyrirtækisins skulu leggja fyrir byggingafulltrúa nákvæm kort með staðsetningum vegslóða og staðsetningum mastranna áður en ráðist verður í framkvæmdir.

Eins og áður hefur verið greint frá í Skessuhorni áformar fyrirtækið Storm orka að reisa vindorkugarð, með á bilinu 28 til 40 vindmyllum, á allt að 600 hektara iðnaðarsvæði í landi Hróðnýjarstaða. Hámarks afkastageta vindorkugarðsins yrði um 100 til 130 mW.

Líkar þetta

Fleiri fréttir