Maður úr lífhættu eftir hnífsstunguárás á Akranesi

Rétt fyrir miðnætti í gærkvöldi barst Lögreglunni á Vesturlandi beiðni frá Sjúkrahúsinu á Akranesi vegna manns sem þangað hafði komið og lét ófriðlega. Þegar lögreglumenn komu á vettvang var maðurinn á bak og burt. Á meðan lögreglumenn voru enn á vettvangi barst svo önnur tilkynning frá manni sem búsettur er nærri sjúkrahúsinu. Bað sá um aðstoð lögreglu þar sem verið væri að ráðast á hann. Við þetta bættist svo þriðja tilkynningin um að maður hefði verið stunginn með hnífi þarna.

Jón S Ólason yfirlögregluþjónn segir að sjúkraflutningamenn á Akranesi ásamt lögreglu hafi þegar farið á vettvang. Í ljós kom að að maður hafði verið stunginn í hálsinn með hníf og var hann fluttur með hraði á Sjúkrahúsið á Akranesi. Eftir aðhlynningu þar og undirbúning var hann fluttur til Reykjavíkur á Landspítalann. „Sá sem fyrir stungunni varð, var sá hinn sami og látið hafði ófriðlega á sjúkrahúsinu skömmu áður. Grunaður árásarmaður er í haldi lögreglu og var hann handtekinn á staðnum. Farið verður fram á gæsluvarðhald yfir honum síðar í dag,“ segir í tilkynningu frá lögreglu. Mennirnir eru báðir búsettir þar sem atvikið átti sér stað. Rannsókn lögreglu er á frumstigi og atburðarás enn óljós. Sá er sem stunginn var er talinn úr lífshættu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir