Í fyrsta skipti fleiri en fimmtíu Íslendingar yfir tírætt

Jónas Ragnarsson ritstjóri upplýsingavefjarins Langlífis skrifar á vefinn að undanfarna áratugi hafi þeim farið fjölgandi sem ná hundrað ára aldri. Í júnímánuði var sett met þegar fjöldi hundrað ára og eldri á lífi fór í fyrsta sinn yfir fimmtíu. Nú eru þeir 52, 15 karlar og 37 konur. Áratugur er síðan fjöldinn komst fyrst upp fyrir fjörutíu og fjörutíu ár síðan hann fór yfir tíu. Elstu staðfestu upplýsingar um Íslending sem náði þessum aldri eru frá árinu 1866 og vitað er um 725 sem hafa orðið hundrað ára, þar af um fimmtíu í Vesturheimi. Karlar eru um fjórðungur hópsins.

Nú er Jensína Andrésdóttir elst Íslendinga, 108 ára. Guðrún Straumfjörð er 107 ára og Dóra Ólafsdóttir 106 ára. Theodór Jóhannesson er fjórði elsti Íslendingurinn og elstur karla, 104 ára, og Guðný Baldvinsdóttir í Borgarnesi sömuleiðis 104 ára. Fjórir Íslendingar eru 103 ára, sex eru 102 ára og ellefu eru 101 árs. „Nú eru 26 Íslendingar 100 ára, þar af hafa 17 náð þeim áfanga það sem af er ári. Og enn geta ellefu til viðbótar fagnað aldarafmæli fyrir árslok. Það er athyglisvert hve fæðingarárgangurinn frá 1918 er sterkur þegar haft er í huga að árið var þekkt fyrir frosthörkur í ársbyrjun og Kötlugos og Spænsku veikina um haustið,“ skrifar Jónas.

Árið 1918 fæddust 2.440 börn hér á landi og er líklegt að rúmlega 1% þeirra nái hundrað ára aldri. Fyrir aldarfjórðungi var þetta hlutfall um 0,6% og um 0,2% fyrir hálfri öld. Hagstofan spáir því að fjöldi hundrað ára og eldri fari yfir eitt hundrað eftir tuttugu ár.

Líkar þetta

Fleiri fréttir