Landsmót UMFÍ var um liðna helgi

Landsmót Ungmennafélags Íslands fyrir 18 ára og eldri fór fram á Sauðárkróki um liðna helgi samhliða meistaramóti í frjálsum íþróttum. Er þetta í fyrsta skipti sem mótið er haldið með þessu sniði þar sem ekki þarf að keppa undir merkjum aðildarfélags. Var það tilraun til í að endurvekja mótið og auka þátttöku á því. Að sögn Rósu Marinósdóttur, sem hefur verið virk í starfi UMSB og UMFÍ árum saman, var mótið vel heppnað þrátt fyrir mikla úrkomu. „Ég geri ráð fyrir að veðrið hafi sett aðeins strik í reikninginn varðandi árangur í ýmsum greinum. En þrátt fyrir það var stemning góð. Keppt var í ýmsum greinum auk þessara hefðbundnu íþróttagreina og má þar sem dæmi nefna pönnukökubakstur og stígvélakast. Það var nóg um afþreyingu fyrir alla og dagskráin á kvöldin var afskaplega vel heppnuð,“ segir Rósa.

Vestlendingar stóðu sig ágætlega á mótinu að sögn Rósu og voru keppendur í aldursflokknum 50+ mest áberandi. „Ég veit að Borgfirðingar og Akurnesingar voru að gera góða hluti í boccia og pútti. Lið frá FEBAN, Félagi eldri borgara á Akranesi og nágrenni, sigraði í boccia og Borgfirðingar tóku þrjú efstu sætin í sveitakeppni í pútti og meirihluta verðlauna í einstaklingskeppninni. Þá varð Ingveldur H Ingibergsdóttir frá UMSB í fyrsta sæti í 800 m hlaupi í flokknum 50-54 ára,“ segir Rósa og bætir því við að konur úr Borgarnesi í 50+ hafi einnig gert það mjög gott í sundinu og unnið til margra verðlauna. Sigurður Þ Jónsson frá HSH stóð sig einnig vel í flokki 70-74 ára karla og sigraði í kúluvarpi með 4 kílóa kúlu, spjótkasti 500 gr og lóðakasti 7,26 kg. Þá sigraði Kristófer Sæland Jónasson frá HSH spjótkast 400 gr. í aldurhópnum 80-84 ára.

Líkar þetta

Fleiri fréttir