Bræðurnir Axel Már og Alfreð Freyr inni í nýja bakaríinu með merkið og nafn Kallabakarís uppi á vegg.

Brauða- og kökugerðin flutt og nafninu breytt í Kallabakarí

Í lok næstu viku stendur til að Brauða- og kökugerðin við Suðurgötu verði flutt í nýtt húsnæði við Innnesveg 1 á Akranesi. Það verður jafnframt fyrsti flutningurinn í sögu þessa ríflega 50 ára fjölskyldufyrirtækis sem frá stofnun 1967 hefur verið til húsa í litlu iðnaðarhúsnæði við Suðurgötu 50a. Húsnæðið er tekið á leigu af eigendum Bílvers sem reka bílaumboð og verkstæði í norðurenda hússins. „Við erum gríðarlega spenntir fyrir þessum tímamótum í sögu fyrirtækisins. Hér erum við að fara í þrefalt rúmbetra húsnæði en við höfum á gamla staðnum og þetta aukna rými skapar fjölmörg tækifæri fyrir reksturinn hjá okkur. Viðskiptavinir okkar munu fá meiri þjónustu og sjá strax aukið vöruúrval,“ sögðu bakarabræðurnir Alfreð Freyr og Axel Már Karlssynir í samtali við Skessuhorn.

Þeir hafa undanfarin misseri unnið við breytingar á húsnæðinu og skipulagt flutning starfseminnar á nýjan stað. „Hér erum við komnir sem næst miðju bæjarins þaðan sem leiðir liggja til allra átta. Við munum stórauka vöruúrval hjá okkur og opnum m.a. flott kondítorí með aðstöðu fyrir um 40 manns í sal. Við munum opna fyrr en á gamla staðnum, þar sem var opnað klukkan sjö á morgnana. Þá getur fólk hvort sem er litið við í kaffi eða til að kaupa sér nesti inn í daginn. Í rauninni má einnig líkja þessu við byltingu fyrir okkur sem störfum í fyrirtækinu. Aðstaðan verður allt önnur og tækjakostur mun betri,“ sagði Alfreð þegar hann sýndi blaðamanni nýju húsakynnin. Þeir bræður bæta því við að bakaríinu við Suðurgötu verður nú lokað en það ekki tekið niður að sinni. „Við munum geyma það óbreytt til að byrja með, breiðum bara yfir tæki og búnað og geymum í óbreyttri mynd þar til síðar.“

Sjá nánar í Skessuhorni sem kom út í dag.

Líkar þetta

Fleiri fréttir