Hafsteinn Þórisson hróðugur með hluta afla þeirra frænda. Ljósm. Þórir Indriðason.

Ævintýrin gerast í laxveiðinni

„Við vorum að ljúka tveggja daga veiði í Reykjadalsá í Borgarfirði og erum algjörlega í skýjunum,“ sagði Pétur Jónsson í samtali við Skessuhorn fyrr í dag. Veitt er á tvær stangir í ánni og náði hollið sem lauk veiði í dag samanlagt 31 laxi og fimm silungum. „Það var lax bókstaflega út um alla á og fengum við laxa á neðsta staðnum í Klettsfljótinu sem og þeim efsta, við Giljafoss. Það var eiginlega alveg sama hvar við kíktum, það var líf á öllum stöðum og mikið af fiski. Ég fékk til dæmis lax í Sturlu-Reykjafljótinu, nýgenginn og lúsin enn með halann,“ sagði Pétur sem var að veiðum í félagi við föður sinn, son og mág. Hinni stönginni deildu frændurnir Þórir Indriðason og Hafsteinn Þórisson. Þeir fengu 25 af þessum löxum sem hollið fékk og voru býsna ánægðir með sinn hlut, rétt eins og Pétur.

Já, ævintýrin gerast enn, því Reykjadalsá er hreint ekki á lista yfir mestu laxveiðiár landsins. Pétur sagði að veiðibókin nú sýndi að 99 laxar eru komnir á land úr ánni sem er metveiði í þessari á, sem einkum er þekkt fyrir haustveiði. Mesta veiði sem skráð hefur verið í lok júlímánaðar fram til þessa er 83 laxar svo það met er kyrfilega slegið þegar júlí er ríflega hálfnaður. „Það verður áfram veisla hjá þeim sem voru að byrja á eftir okkur, því áin er bókstaflega stappfull af fiski. Ég hefði aldrei trúað þessu fyrirfram,“ sagði Pétur.

Pétur Jónsson ásamt syni sínum Jóni Sverri.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Gleðilegt sumar!

Skessuhorn óskar lesendum sínum, ungum sem gömlum, til sjávar og sveita, gleðilegs sumars.