Fyrstu drög að vefnum. Mynd: stjórnarráðið.

Stefna að samræmdum þjónustuvef fyrir allt landið

Á fundi sem ríkisstjórn Íslands hélt í Langaholti í Staðarsveit í dag var samþykkt að tryggja öflun, samræmingu og áreiðanleika gagna sem þarf við áframhaldandi þróun þjónustukorts fyrir allt landið. Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra kynnti á fundinum fyrsta áfanga kortsins með opnun vefsjárinnar thjonustukort.is. Starfshópur skipaður starfsfólki nokkurra ráðuneyta mun fylgja samþykktinni eftir.

Í ríkisstjórnarsáttmála segir í kafla um eflingu Alþingis stjórnin muni „hefja samstarf við sveitarfélögin um gerð þjónustukorts sem sýnir aðgengi landsmanna að allri almennri þjónustu hins opinbera og einkaaðila til að bæta yfirsýn og þar með skapa grundvöll fyrir aðgerðir til að tryggja íbúum þjónustu og jafna kostnað.“ Ábyrgð á framkvæmd þessa verkefnis verður hjá samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Markmiðið er að auka og bæta aðgengi almennings að upplýsingum um þjónustu hins opinbera og einkaaðila. Þannig er lagður grunnur að bættri þjónustu við almenning, auknum tækifærum til nýsköpunar og frekari stefnumótunar á sviði byggðamála. Afurð verkefnisins verða upplýsingar til landsmanna um þjónustu, settar fram á myndrænan og gagnvirkan hátt.

Þjónustukortið verður unnið í áföngum og er það fyrsti áfangi sem kynntur var að þessu sinni með opnun vefsjárinnar thjonustukort.is  Þar eru tilteknar upplýsingar á sviði heilbrigðis-, fræðslu- og löggæslumála. Ýmsar mikilvægar upplýsingar vantar í kortið eins og það er birt núna, auk þess sem hönnun útlits og framsetningar á eftir að taka þróun. Við vinnuna hefur Byggðastofnun m.a. notið aðstoðar Landmælinga Íslands og ráðgjafarfyrirtækisins Alta ehf.

Líkar þetta

Fleiri fréttir