OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Farið í úttekt á vegum á Vesturlandi

Ólafur Guðmundsson umferðaröryggissérfræðingur er nú á ferð um Vesturland í þeim tilgangi að taka út vegi í landshlutanum, allt frá Hvalfirði að Gilfirði. Á fréttasíðunni budardalur.is ræðir Þorgeir Ástvaldsson við Ólaf, áður en ferðalag hans hófst. Þar segir Ólafur að hann muni aka um og mynda alla helstu vegi í landshlutanum, skoða ástandið á þeim og fara yfir stöðuna, veikleikana og hvernig ætti að forgangsraða til að gera vegina betri.

Eitt af því sem tekið verður út í þessari ferð er umhverfi vega, brýr og í viðtalinu spyr Þorgeir Ólaf sérstaklega út í einbreiðar brýr sem víða má finna í Dölum. „Þessar brýr í Dölunum eru mjög slæmar, þær eru ofan í lægðum á bakvið blindhæðir og þær eru orðnar það fáar í Dölunum að það er með ólíkindum að það sé ekki búið að laga þær nú þegar. Í einhverjum tilfellum eru þessar ár sem þarna fara undir ekki stærri en svo að það mætti breyta þessu í stór ræsi,“ segir Ólafur.

Þá spyr Þorgeir Ólaf einnig hvort vegakerfið á Vesturlandi sé komið að fótum fram og Ólafur játar því. „Ég held að það sé tilfellið, það hefur lítið verið gert í vegamálum á Vesturlandi og áherslurnar hafa farið í aðra landshluta,“ segir Ólafur og bætir því við að Sturla Böðvarsson fyrrum samgönguráðherra hafi barist fyrir bótum og átt sinn þátt í að þessi ferð hafi verið farin til að taka vegina út fyrir öll sveitarfélög á Vesturlandi.  Niðurstöður Ólafs munu síðan verða afhentar sveitarfélögum á Vesturlandi þannig að þau verði betur í stakk búin að benda á með faglegum rökum til Vegagerðarinnar og stjórnvalda þar sem brýna nauðsyn ber til að gera endurbætur og breytingar á vegakerfinu.

Nánar má sjá í viðtalinu sem hægt er að finna á www.budardalur.is

Líkar þetta

Fleiri fréttir