Sjá má litamun þar sem nýtt berghlaup hefur fallið yfir það eldra. Ljósm. jgg.

Áfram falla skriður úr Fagraskógarfjalli – hættulegt að fara of nærri svæðinu

Á laugardaginn varð mikið hrun úr sárinu sem varð í Fagraskógarfjalli í Hítardal aðfararnótt 7. júlí síðastliðinn. Jón Guðlaugur Guðbrandsson bóndi á Staðarhrauni hefur fylgst grannt með fjallinu og tók myndirnar sem fylgja þessari frétt. Hann segir að milli klukkan 14 og 15 laugardaginn 14. júlí hafi byrjað að falla nokkrar stórar skriður og aðrar minni úr fjallinu. Hrunið hélt síðan áfram allt fram á miðnætti um kvöldið. Enginn þessara skriða féll þó langt niður á jafnsléttu og engin fór út úr gamla farinu sem fyrsta skriðan féll á. Jón tók meðfylgjandi myndir á sitt hvorum tíma dagsins síðastliðinn laugardag. Ein myndin er tekin klukkan 13:00 laugardaginn 14. júlí og önnur klukkan 22:00. Greinilega má sjá með því að bera þessar myndir saman að stórt berghlaup hefur fallið efst úr fjallsbrúninni þá um kvöldið. Jón Guðlaugur segir að hringt hafi verið í lögregluna en hann hafi ekki orðið var við viðbragðsaðila. Hann segir að annað slagið sjái heimamenn fólk á ferð í skriðunni og slíkt sé eðli málsins samkvæmt stórhættulegt miðað við aðstæður.

Þessi mynd er tekin klukkan 13 laugardaginn 14. júlí.

Þessi mynd er tekin klukkan 22 laugardaginn 14. júlí. Greinilega sést hvernig stórt berghlaup hefur orðið úr fjallinu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Mottumars er hafinn

Átaki Krabbameinsfélagsins, Mottumars, var formlega hrundið af stað síðastliðinn föstudag. Átakið snýst um, eins og landsmenn þekkja, krabbamein í körlum.... Lesa meira