Forstjóri HVE uggandi yfir óvissunni sem kjaradeilan er að valda

Enn er kjaradeila ljósmæðra og íslenska ríkisins óleyst og hefur nú verið boðað yfirvinnubann næstkomandi miðvikudag, 18. júlí. Blaðamaður Skessuhorns hafði samband við Jóhönnu Fjólu Jóhannesdóttur forstjóra Heilbrigðisstofnunar Vesturlands og tók stöðuna á ástandinu á fæðingadeildinni á Akranesi. Jóhanna segist uggandi yfir óvissunni sem nú ríkir og að komi til yfirvinnubanns. „Við vitum vel að ef til þess kemur verður erfitt að halda uppi þjónustu. En ég vona að deiluaðilar setjist niður hið fyrsta og reyni til þrautar að semja þannig að unnt verði að afstýra yfirvinnubanninu,“ segir Jóhanna. Aðspurð segir hún ástandið á Akranesi þó enn vera viðráðanlegt. „Uppsagnir ljósmæðra á Landspítalanum hafa ekki náð í sama mæli hingað svo við erum ekki enn farin að glíma við alvarlega undirmönnun. Aukið álag hér núna tengist fyrst og fremst knappri sumarmönnun en við erum bara með eina ljósmóðir á vakt í einu yfir sumarið. Þó hefur ein ljósmóðir nýverið sagt upp stöfum hjá okkur,“ segir Jóhanna.

 

Metið frá degi til dags

Jóhanna segir að fæðingum á Akranesi hafi fjölgað frá mánaðamótum vegna aukins álags á Landspítalanum. „Við settum af stað aukna samvinnu við Landspítalann í þeim tilgangi að dreifa álaginu ef hægt er. Á fæðingadeildinni á Akranesi hafa verið fleiri fæðingar en skráðar voru í upphafi mánaðarins m.a. vegna valkeisara sem komið hafa frá Landspítalanum eftir að uppsagnir ljósmæðra á Landspítalanum tóku gildi um síðustu mánaðamót,“ segir hún. „Frá föstudeginum 13. júlí er ekki svigrúm til að taka við fleiri beiðnum um að fæða á Akranesi en þeim sem þegar er búið að skrá á listann fyrir væntanlegar fæðingar í næstu viku. Ef koma beiðnir um aðstoð frá Landspítalanum munum við að sjálfsögðu reyna að verða við því en svigrúmið sem við höfum er ekki mikið og meta þarf mögulega aðstoð frá degi til dags.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir