Greta Maria Árnadóttir opnaði gullsmíðaverkstæði í húsnæði Leir 7 í Stykkishólmi á laugardaginn. Ljósm. sá.

Nýtt gullsmíðaverkstæði opnað í Leir 7

Greta Maria Árnadóttir opnaði gullsmíðaverkstæði í húsnæði Leir 7 í Stykkishólmi á laugardaginn. Greta fæddist í Reykjavík en flutti til Danmerkur sex ára gömul og hefur búið þar síðan. Árið 2007 hóf hún nám í gullsmíði sem hún lauk árið 2011. Þá tók við tveggja ára tímabil þar sem hún ferðaðist um heiminn og vann víða, m.a. í New York. „Ég kom eitt sumar hingað í Hólminn að vinna og kynntist þá Kára, manninum mínum sem er héðan úr Hólminum,“ segir Greta í samtali við blaðamann Skessuhorns.

Eftir sumarið í Stykkishólmi fór hún aftur til Danmerkur í nám í skartgripahönnun, tækni og markaðssetningu við KEA, Københavns Erhvervsakademi. „Kári flutti þá út til mín og við eignuðumst dóttur okkar þar. Ég útskrifaðist svo í janúar síðastliðnum og þá voru í raun allar dyr opnar og við fórum að skoða hvað við vildum gera næst. Okkur langaði í rólegra fjölskyldulíf og ákváðum því að flytja í Hólminn og komum hingað í maí. Mér bauðst þetta frábæra vinnustæði hér í Leir 7 og er spennt að fara að vinna þar,“ segir Greta.

Aðspurð segist Greta taka að sér öll hefðbundin gullsmíðaverk auk þess sem hún er með sína eigin hönnun. „Mín hönnun er aðeins frábrugðin þessari hefðbundnu íslensku hönnun. Ég vinn mikið með bylgjulaga form, náttúruna og umhverfið. Eins og er smíða ég mest úr silfri en svo verð ég líka með gull, eðalsteina, demanta og langar að sjá hvort ég geti ekki notað íslenska steina líka,“ segir Greta. „Ég smíða og geri við allar tegundir af skartgripum. Fólki er alltaf velkomið að koma á verkstæðið að skoða það sem ég er að gera. Þá get ég líka tekið við sérpöntunum og ef einhver hefur hugmynd er alveg velkomið að spyrja hvort ég geti framkvæmt hana,“ bætir Greta við.

Líkar þetta

Fleiri fréttir