
Myndarlega tekið til hendinni hjá Skógræktarfélagi Ólafsvíkur
Fréttaritari Skessuhorns mælti sér nýverið mót við Vagn Ingólfsson formann Skógræktarfélags Ólafsvíkur til að fræðast um starfsemi félagsins. Vagn var þá staddur ásamt Sigurði Scheving í ræktunarreit félagsins ofan Ólafsvíkur. Þar var einnig að störfum vinnuhópur undir stjórn Jóns Ásgeirs Jónssonar skógfræðings og starfsmanns Skógræktarfélags Íslands. „Jón ásamt fimm erlendum starfsmönnum komu til okkar síðastliðið sumar og svo aftur núna í sumar til að útbúa göngustíga um skóginn og til að sinna ýmsum verkum sem til falla t.d. brúar- og tröppugerð,“ segir Vagn. „Skógræktarfélag Íslands útvegar okkur þetta starfsfólk, núna kemur það frá fjórum Evrópulöndum, þ.e. Póllandi, Spáni, Tékklandi og Ítalíu. Sjálfboðaliðarnir koma í gegnum verkefni sem heitir Europian Volunteering Service sem er undir stjórn Evrópusambandsins. Innan EVS eru allskonar verkefni í gangi um alla Evrópu í styttri og lengri tíma. Skógræktarfélag Íslands ásamt Jóni Ásgeiri hefur séð um að útvega okkur þennan starfskraft og erum við mjög þakklát fyrir.“
Vagn er mjög ánægður með þá vinnu sem unnin hefur verið undanfarin tvö sumur af þessum hópum sem hafa komið og vill hann jafnframt leggja áherslu á að Snæfellsbær hefur styrkt skógræktarfélagið við þetta verkefni mjög myndarlega og á þakkir skyldar fyrir.
Síðastliðið sumar og það sem af er sumri hefur verið gert stórátak í gróðursetningu trjáplantna í land skógræktarfélagsins. Gróðursettar hafa verið rúmar 30.000 plöntur af hinum ýmsu tegundum en þriðjungur þess fjölda er íslenskt birki. Einnig hefur verið unnið að töluverðri stækkun á landi félagsins og vonandi verður gengið frá því sem fyrst.