Hvassar og háar brúnir á skemmdum vegum

„Ég var á leiðinni heim úr vinnunni í gærkvöldi og ók í holu á vegkanti og eyðilagði tvö dekk og báðar felgurnar hægra megin á bílnum,“ segir Gunnar Ásgeir Gunnarsson sem býr á Felli í Reykholtsdal. Gunnar var að mæta bíl á móts við bæinn Síðumúlaveggi í Hvítársíðu. Ökumaður hins bílsins vék ekki út af miðlínu vegarins og því varð Gunnar að aka út í kantinn með hvössum brúnum og um 20 sentimetra djúpri holu. „Vegurinn um Borgarfjarðarbraut og uppsveitir Borgarfjarðar er víða talsvert illa farinn og skortir almennilegt viðhald. Smám saman slitnar malbikið út við kantana með tilheyrandi hættu. Þetta eru því víða alveg skelfilega mjóir vegir og engar vegaxlir. Svo ef þessir vegir eru lagfærðir með nýju slitlagi, þá er jafnvel ekki gert við skemmdirnar áður en lagt er yfir. Því endast þær viðgerðir stutt.“ Gunnar segist hafa haft samband við starfsmann Vegagerðarinnar sem tjáði honum að sífellt væri verið að skera niður fjárveitingar í viðhaldsfé þessara vega. „Þetta er ófært ástand,“ sagði Gunnar Ásgeir í samtali við Skessuhorn.

Líkar þetta

Fleiri fréttir