Hér er rétt að hefjast skurður á langreyði í rennunni við Hvalstöðina.

Hvalveiðar í fullum gangi

Nú hefur á þriðja tug hvala veiðst og verið unnir í Hvalstöðinni í Hvalfirði. Þar er gengið fumlaust til verka. Ljósmyndari Skessuhorns fylgdist með skurði á einni langreyði á plani Hvalstöðvarinnar í gær. Á útsýnissvæði ofan við athafnasvæðið voru auk blaðamanns nokkrir áhugasamir Íslendingar að fyljast með hvalskurðinum. Fólki sem rætt var við fannst þetta áhugavert og töldu jákvætt að Íslendingar héldu í þessa fornu hefð að veiða og nytja hvalinn. Meðal þeirra var bændahjón sem kváðust hafa nýtt óþurrk til að fara í bílferð og áhugaljósmyndarar frá Akranesi. Einnig var á ferðinni hestamaður úr Skagafirði sem var á heimleið af Landmóti með viðkomu á Suðurlandi. Sagðist sá hafa unnið við slátrun búfjár til fjölda ára og ætti sér þann draum heitastan að fá að starfa á hvalskurðarplani.

Veður var með ágætum meðan hvalurinn var skorinn og sólin náði að ylja áhorfendum og körlunum á plani af og til. Frá því byrjað var að skera hvalinn og þar til verkinu lauk leið ekki nema rúm klukkustund. Öll tæki, gufuknúin spil og önnur, virðast ganga smurt jafnvel þótt mörg séu þau komin til ára sinna líkt og hvalbátarnir sem báðir voru að veiðum í gær. Þá er allt viðhald mannvirkja á svæðinu, og ekki síður heima í braggahverfinu, Hvali hf. til sóma.

 

Er og verður umdeilt

En hvalveiðar eru og verða sjálfsagt alltaf umdeildar. Að hluta til má rekja það til þekkingarleysis, en mörgum, einkum þó útlendingum, finnst vænt um hvali og eru mótfallnir veiðum á þeim óháð rökum um sjálfbærar veiðar. Í vikunni komst svo í heimspressuna þegar einn af hvölum þessarar vertíðar reyndist að líkindum vera blendingsafkvæmi langreyðar og steypireyðar. Síðarnefnda tegundin hefur verið alfriðuð frá 1959. Fullyrt var af dýraverndunarsamtökunum Hard to Port að um hreinræktaða steypireyð hefði verið að ræða og því væru Íslendingar að brjóta lög. Fram kom í fréttum að erfðasýni hefði verið tekið úr dýrinu og myndi rannsókn á því væntanlega fá úr því skorið hvort um blending hefði verið að ræða eða ekki. Blendingsafkvæmi hvala njóta ekki lagalegrar verndar. Kristján Loftsson forstjóri Hvals hf. segir útilokað að hvalveiðimenn ruglist á steypireyði og langreyði og er því rólegur yfir niðurstöðu rannsóknarinnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir