Erfðaskrá ógilt þar sem lögerfingi reyndist vera til

Héraðsdómur Vesturlands hefur með úrskurði fellt úr gildi erfðaskrá manns sem lést árið 2016. Breytast með þeim úrskurði skipti á dánarbúi eins og getið hafði um í erfðaskrá mannsins sem gerð hafði verið 2004. Í ljós kom að maðurinn hafði átt óskilgetinn son sem ekki var getið um í erfðaskrá, enda hafði sonurinn verið feðraður öðrum frá fæðingu hans. Málavextir voru þeir að þegar sonurinn, sóknaraðilinn í málinu, fæddist árið 1951. Hafði móðir hans verið barnshafandi en hafið sambúð og gifst öðrum manni sama ár. Í tilkynningu til Þjóðskrár var eiginmaður konunnar skráður faðir barnsins og í samræmi við þágildandi lög um afstöðu foreldra til óskilgetinna barna var sóknaraðili við hjúskapinn talinn skilgetinn sonur hans. Sóknaraðili lýsir því í greinargerð sinni að hann hafi strax á barnsaldri fengið vitneskju um að eiginmaður móður hans væri ekki blóðfaðir sinn heldur annar maður sem dvalið hefði á sama stað vorið og sumarið áður og kynnst móður hans þar.

Maðurinn höfðaði fyrst faðernismál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 2016 til véfengingar á því að eiginmaður móður hans hefði verið faðir sinn. Lauk því máli með dómssátt á grundvelli barnalaga um að fósturfaðir hans væri ekki blóðfaðir sóknaraðila og byggði sú niðurstaða á mannerfðafræðilegum rannsóknum sem sýndu að meiri en 99% líkur væru á því að hinn látni, sem lést fyrr þetta ár, væri faðir sóknaraðila. Héraðdómur Vesturlands felldi því með úrskurði sínum 10. júlí síðastliðinn úr gildi erfðaskrána, en hinn látni hafði arfleitt fjarskyldari ættingja að öllum eignum sínum.

Í máli þessu var stuðst við 38. gr. erfðalaga þar sem fjallað er um þá aðstöðu er ákvæði í erfðaskrá stafi af rangri hugmynd arfleifanda. Taldi sóknaraðili að val hins látna á erfingjum hefði verið byggt á misskilningi um erfingja og að miða yrði við að hann hefði ekki hagað arfleiðslunni með þeim hætti sem hann gerði hefði hann búið yfir vitneskju um að hann ætti einkason enda væri ráðstöfunin beinlínis óheimil samkvæmt ákvæðum erfðalaga. Samkvæmt úrskurði héraðsdóms tekur einkasonurinn nú einn allan arf eftir föður sinn, þar með talda fasteign sem hinn látni hafði ráðstafað tilteknum einstaklingi sem fyrirframgreiddum arfi skömmu fyrir andlát sitt. Tíu einstaklingar sem fengu arfhlut samkvæmt erfðaskrá hins látna fá nú ekkert og greiða allan málskostnað, en blóðsonur mannsins erfir eignir hans.

Líkar þetta

Fleiri fréttir