Víravegrið sett upp í Staðarsveit

Starfsmenn frá fyrirtækinu Rekverki hafa undanfarið unnið að því fyrir Vegagerðina að setja upp víravegrið í Staðarsveit á Snæfellsnesi. Að þessu sinni voru sett upp vegrið á alls um kílómeters kafla, um 500 metrar við Vatnsholtsvötn og um 500 metrar rétt austan við Langaholt og Ytri Garða. Til þess að hægt væri að setja vegriðin upp þurfti að bæta í kantana. Undanfarin ár hefur verið sett upp mikið af víravegriðum hér á landi, bæði til að skilja að akstursstefnur og í vegköntum til að auka umferðaröryggi þar sem hættulegt er að lenda utan vegar.

Gáfu strákarnir hjá Rekverk sér tíma fyrir myndatöku og spjall þegar ljósmyndari Skessuhorns var á ferð í vikunni. Voru þeir hressir þrátt fyrir að veðrið væri ekki upp á það besta. Þegar þessu verkefni lýkur halda þeir hins vegar norður í land til samskonar starfa.

Líkar þetta

Fleiri fréttir