Viku pílagrímaferð ráðgerð frá Bæ í Skálholt

Þriðjudaginn 17. júlí verður lagt upp í pílagrímagöngu frá Bæ í Bæjarsveit til Skálholts og gengið til messu á Skálholtshátíð, sunnudaginn 22. júlí. Það eru þær sr. Elínborg Sturludóttir og Hulda Guðmundsdóttir guðfræðingur sem leiða gönguna. „Ekki verður um skipulagða ferð að ræða og því er engin skráning í gönguna, heldur mætir fólk eins og það kýs og hver og einn þarf að sjá um sig að því er varðar mat og gistingu á leiðinni. Öllum er frjálst að taka þátt, ýmist á stökum dagleiðum eða alla 120 kílómetrana í Skálholt,“ segir Hulda á Fitjum.

Leiðin liggur um fornar þingleiðir, biskupaleiðir, presta- og verleiðir. Margir áhugaverðir staðir með sögulega tengingu eru á leiðinni. Upplýsingaskilti eru við Bæjarkirkju, Lundarkirkju, Fitjakirkju, í Botnsdal og við Apavatn. Sem „pílagrímsleið” er leiðin merkt og skilgreind að fyrirmynd Norðmanna um Ólafsveginn í Noregi, frá Osló til Niðaróss.

 

Dagleiðir eru sem hér segir:

Fyrsti dagur, 17. júlí kl. 13:00 Safnast saman í Bæjarkirkju í Borgafirði. Gangan kynnt og síðan er stutt helgistund í kirkjunni. Gengið að Fossatúni norðan Blundvatns og þaðan bílveginn að Lundarkirkju í Lundarreykjadal. Tiltölulega auðveldur áfangi sem flestir geta gengið. Alls um 17 km.

 

Annar dagur, 18. júlí kl. 9:00: Safnast saman við Lundarkirkju. Eftir stutta helgistund er gengin Krosshólagata (prestastígur) yfir í Skorradal, að Fitjakirkju. Hér þarf að byrja á því að vaða Grímsána. Erfiðari áfangi en sá fyrsti, en ekki langur. Alls rúmir 12 km.

 

Þriðji dagur, 19. júlí kl. 9:00: Safnast saman í Fitjakirkju. Stutt helgistund. Við upphaf göngunnar þarf að vaða Fitjaá. Gengin Síldarmannagata upp frá Vatnshorni yfir í Botnsdal/Hvalfjörð. Farið í tæpa 500 m.y.s. á vatnaskilum við Tvívörður. Ekki fyrir óvana. Alls um 17 km.

 

Fjórði dagur, 20. júlí kl. 9:00: Safnast saman við upplýsingaskilti Pílagríma í Hvalfjarðarbotni. Eftir helgistund er gengið um Leggjabrjót og eftir Langastíg að Þingvallakirkju. Vaða þarf yfir Öxará. Erfið ganga og löng. Ekki fyrir óvana. 21.2 km.

 

Fimmti dagur, 21. júlí kl. 9:00 er helgistund í Þingvallakirkju. Gengið frá kirkjunni upp að Hrafnagjá, biskupaleið og um Lyngdalsheiði að N-Apavatni. Erfiður áfangi og ekki fyrir óvana. 26.9 km.

 

Sjötti dagur, 22 júlí kl. 9:00. Safnast saman við upplýsingaskilti Pílagríma við veginn að Laugarvatni, skammt frá bænum Neðra-Apavatni (N64°08.397′ W20° 42.895′). Nokkuð auðveldur áfangi. 14.7 km. Gengið til messu á Skálholtshátíð.

Líkar þetta

Fleiri fréttir