Talinn hafa valdið tjóni með aðgerðum og aðgerðaleysi

Héraðsdómur Vesturlands hefur kveðið upp dóm í allsérstæðu máli sem tengist búrekstri á ótilgreindri jörð á Vesturlandi. Á jörðinni rak sambúðarfólk kúabú í nafni hlutafélags frá árinu 2002 í jafnri eigu þeirra beggja, eða allt þar til slitlaði upp úr sambandi þeirra árið 2011 og konan flutti burtu. Maðurinn hélt búskap áfram á jörðinni. Konan krafðist þess nú fyrir dómi að viðurkennt yrði að maðurinn bæri skaðabótaábyrgð á tjóni sem hann hafi valdið henni sem meðeiganda að búinu „með aðgerðum og aðgerðaleysi við búrekstur á jörðinni,“ eins og nánar er tilgreint í málsgögnum. Þá kemur fram að krafa konunnar byggi á því að í aðdraganda þess að dreifing afurða frá búinu var bönnuð af Matvælastofnun 21. júní 2013, hafi maðurinn sýnt aðgerðaleysi og ekki unnið að úrbótum við búið með fullnægjandi hætti eftir þann tíma svo að unnt væri að selja þaðan mjólk að nýju. Loks hafi hann án hennar samþykkis tekið ákvörðun um að selja bústofninn sem var í sameiginlegri eigu þeirra beggja og vitnað er í kaupsamning dagsettan 25. júní 2014 þar að lútandi. Kýrnar voru í kjölfarið seldar og fluttar á annað bú.

Dómurinn taldi sannað að maðurinn bæri skaðabótaábyrgð á tjóni sem konan hefði orðið fyrir með ýmsum aðgerðum og aðgerðaleysi, eins og rakið er í dómsgögnum, við búreksturinn eftir að hún hvarf brott af bújörðinni. Dreifing mjólkur frá búinu hafi sannanlega verið stöðvuð af Matvælastofnun og maðurinn hafi sýnt aðgerðaleysi með að vinna ekki að tilheyrandi úrbótum með fullnægjandi hætti eftir þann tíma svo að unnt væri að selja mjólk frá búinu. Þá hafi hann tekið ákvörðun um að selja bústofninn. Með dómnum er viðurkennt að maðurinn beri að greiða sameiganda sínum að búrekstrinum bætur fyrir það tjón sem hann hafi valdið konunni. Honum var einnig gert að greiða 1,1 milljón króna í málskostnað.

Líkar þetta

Fleiri fréttir