Svipmynd frá Sandara- og Rifsaragleðinni fyrir tveimur árum. Ljósm. úr safni: af.

Sandara- og Rifsaragleði um næstu helgi

Sandara- og Rifsaragleði verður haldin um næstu helgi en hátíðin hefur verið haldin annað hvert ár frá 2002. Að sögn Drífu Skúladóttur umsjónamanns hátíðarinnar gengur undirbúningur vel. „Það er mjög ánægjulegt hversu duglegir heimamenn eru að taka þátt í öllum undirbúningi. Það þarf ekki annað en að hóa í mannskap þá eru allir mættir, hvort sem er til að þrífa, skreyta, undirbúa viðburði eða hvað sem er. Það er svo mikils virði í svona bæjarfélögum þegar allir taka virkan þátt,“ segir Drífa. Upphaf hátíðarinnar má rekja til þess að átthagafélag Sandara kom á árum áður reglulega vestur í hópferðir og hélt mikið húllumhæ. „Sú hefð lognaðist útaf með tímanum og heimamenn ákváðu því að taka þetta upp og halda hátíð í bænum,“ segir Drífa.

Hátíðin hefst í kvöld í Frystiklefanum þegar Ari Eldjárn stígur á svið og skemmtir gestum og svo tekur við fjölbreytt dagskrá alla helgina. Meðal þess sem verður í boði á föstudeginum er golfmót, markaður í Bjarmaskúr, Slysósúpa í Gamla frystihúsinu til styrktar Slysavarnarfélaginu og kvöldsöngur í boði Lionsklúbbsins. „Við ætlum að hittast öll og syngja og hafa gaman saman undir stjórn Lions,“ segir Drífa. Á laugardeginum byrjar dagurinn á markaði í félagsheimilinu Röst og kvenfélagið bakar vöfflur. „Barnadagskráin verður fjölbreytt á laugardeginum og mætir Latibær á svæðið. Um kvöldið verða svo götugrill þar sem allir hittast og grilla saman. Ef veður verður óhagstætt færum við okkur bara inn í bílskúra en það er ekki síður skemmtilegt,“ segir Drífa. Að götugrilli loknu verður ball í Röst til styrktar Sjóminjasafninu með heimahljómsveitinni Ungmennafélaginu. „Hugmyndin er að allur ágóði af viðburðum hátíðarinnar renni til góðra málefna í heimabyggð,“ segir Drífa.

Á sunnudeginum verður barnaskemmtun í Frystiklefanum og þar verður úrslitaleikur á HM í knattspyrnu karla einnig sýndur á stóru bíótjaldi. „Lokapunktur hátíðarinnar eru tónleikar með Halldóri Gylfasyni leikara í Frystiklefanum,“ segir Drífa og bætir því við að þetta séu fyrstu sóló tónleikarnir sem Halldór heldur í Rifi. „Svo má ekki gleyma að það verður farið í allskonar göngur og svo verða myndlistasýningar um allan bæ. Það ættu allir að geta fundið skemmtilega viðburði við hæfi alla helgina. Ég get lofað því að þetta verður skemmtileg helgi og bærinn okkar verður fullur af lífi og fjöri.“ segir Drífa.

Líkar þetta

Fleiri fréttir