Gunnar Sigurðsson framkvæmdastjóri Sementsverksmiðjunnar afhenti Sævari Frey Þráinssyni bæjarstjóra hornsteininn. Ljósm. akranes.is

Hornsteini Sementsverksmiðjunnar verður komið á safn

Nýverið afhenti Gunnar H. Sigurðsson framkvæmdastjóri Sementsverksmiðjunnar Sævari Frey Þráinssyni bæjarstjóra á Akranesi hornstein Sementsverksmiðjunnar. Steininum var bjargað úr ofnhúsinu skömmu áður en niðurrif verksmiðjuhúsanna hófst. Hornsteinninn var lagður fyrir réttum sextíu árum, nánar tiltekið laugardaginn 14. júní 1958. Var hann innmúraður í steypta súlu við úttaksenda gjallbrennsluofns verksmiðjunnar. Hann lagði Ásgeir Ásgeirsson þáverandi forseti Íslands við hátíðlega athöfn. Í skjali viðfast hornsteininum var skráð: ,,Sementsverksmiðja ríkisins. Ríkisstjórn Íslands lét reisa þessa verksmiðju til framleiðslu á sementi í almennings þágu. Ár 1958, laugardag 14. dag júnímánaðar var hornsteinn lagður að verksmiðju þessari. Þá var forseti Íslands: Herra Ásgeir Ásgeirsson.“

Það var svo árið 2013 sem Akraneskaupstaður eignaðist meirihluta landsvæðis undir Sementsverksmiðjunni og farið var að velta fyrir sér framtíð svæðisins. Niðurrif stærsta hluta verksmiðjuhúsanna hófst í lok síðasta árs. Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri segir að hornsteinninn fái veglegan sess í nýrri grunnsýningu á Byggðasafninu í Görðum. ,,Við munum viðhalda minningu um þessa merkilegu atvinnusögu sem Sementsverksmiðjan kom með hingað til Akraness. Við uppbyggingu á svæðinu munum við horfa til þess að reisa einhvers konar minnisvarða á svæðinu og að verksmiðjan fái veglegan sess í nýrri grunnsýningu Byggðasafnsins í Görðum, sem opnuð verður í lok árs 2019. Þar verður umræddur hornsteinn jafnframt staðsettur,“ segir Sævar Freyr.

Líkar þetta

Fleiri fréttir