Svipmynd frá bæjarhátíðinni Heim í Búðardal fyrir tveimur árum. Ljósm. sm.

Bæjarhátíðin Heim í Búðardal að hefjast

Bæjarhátíð Dalamanna „Heim í Búðardal“ verður haldin um næstu helgi, 13. – 15. júlí. Að sögn Bjarnheiðar Jóhannsdóttur, ferðamálafulltrúa Dalabyggðar, gengur undirbúningur vel og þegar orðin mikil stemning fyrir hátíðinni meðal heimamanna. „Það eru ótrúlega margir sem koma að undirbúningnum og erum við þakklát fyrir alla þá sem hafa boðið fram sína aðstoð,“ segir Bjarnheiður. Að vanda verður fjölbreytt dagskrá alla helgina sem hefst með kjötsúpurölti á föstudagskvöldinu. Sú hefð hefur myndast að nokkrir bæjarbúar bjóði heim í kjötsúpu og þá upplagt fyrir gesti að ganga á milli heimila og gæða sér á þessum dýrindis íslenska rétti. „Þetta er skemmtileg hefð og erum við afskaplega þakklát þeim sem eru tilbúnir að bjóða fólki svona inn á heimili sín. Kjötsúpur geta verið svo margvíslegar, þó grunnurinn sé alltaf sá sami er misjöfnum töfrum bætt í hverja og eina súpu,“ segir Bjarnheiður. Áður en farið er í kjötsúpu er ekki úr vegi að taka þátt í metamóti á vegum UDN á íþróttavellinum í Búðardal. „Af tilefni aldarafmælis UDN verður haldið einstaklega skemmtilegt íþróttamót þar sem gömul héraðsmet verða merkt á völlinn og keppendur geta skráð sig til leiks og keppt við gömlu metin,“ segir hún.

 

Fjölskyldudagskrá á laugardeginum

Á laugardeginum hefst dagskráin á froðurennibraut í boði slökkviliðsins, en að því loknu er  heimamönnum og öðrum gestum boðið upp á brunch í Dalabúð. „Þar verðum við með allt þetta helsta sem þarf til að úr verði góður morgunmatur. Við höfum fengið ómetanlega aðstoð bæði frá Geirabakaríi og Mjólkursamsölunni sem ætla að útvega okkur veitingar sem við munum bjóða upp á meðan byrgðir endast,“ segir Bjarnheiður og heldur áfram. „Eftir hádegið verður áhersla á fjölskyldudagskrá. Leikhópurinn Lotta verður með söngstund. Hestaleigan Dalahestar ætla að teyma undir börnum og þeir sem hafa náð 12 ára aldri geta farið í lasertag. Þá verður keppt í tveimur síðustu greinum Vestfjarðarvíkingsins í Búðardal og geta gestir hátíðarinnar horft á. Kassabílarallý KM þjónustunnar verður einnig á sínum stað. Þar verður keppt í kappakstri á heimasmíðuðum ökutækjum. Þær Steinunn Matthíasdóttir og Ída María Önnudóttir munu sýna ljósmyndir og hannyrðir í stúdíói Steinu Matt og opna sýninguna klukkan 16.“

 

Stórdansleikur í Dalabúð

Að kvöldi laugardags verður haldið grillhlaðborð í Dalakoti ef veður leyfir. „Við höfum lagt inn pöntun fyrir góðu veðri og vonumst til að grillhlaðborðið gangi eftir,“ segir Bjarnheiður. Laugardeginum mun ljúka með stórdansleik í Dalabúð þar sem Stjórnin ætlar að leika fyrir dansi. „Á sunnudaginn ætlum við af tilefni fullveldishátíðar Íslands að kynna væntanlegt Vínlandssetur fyrir gestum. Búið er að útbúa hljóðleiðsögn fyrir Vínlandssetrið og verður gestum boðið að hlusta á það með myndasýningu, svona til að fá smá sýnishorn af því sem verður.“

Hátíðinni mun ljúka með göngu í boði Umf. Æskunnar þar sem gengið verður frá Grafarlaug inn í Reykjadal þar sem boðið verður upp á grillaðar pylsur. „Við hvetjum svo alla gesti til að koma við á Erpsstöðum þar sem opið verður alla helgina og frítt í skoðunarferð um fjósið,“ segir Bjarnheiður og bætir því við að hún vonist til að gestir leggi leið sína í Dalina þessa helgi. „Við lofum að taka vel á móti öllum. Hægt verður að tjalda á þremur tjaldsvæðum í Dölunum, í Búðardal, á Á á Skarðsströnd og á tjaldsvæðinu við Laugar í Sælingsdal. Sælingsdalslaug er opin og fjölmargir ferðaþjónustuaðilar í héraðinu sem bjóða upp á glæsilega gistingu,“ bætir hún við að lokum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir