Falleg stund þegar Olla í Nýjabæ og hennar fólk tóku við heiðursverðlaunum fyrir stóðhestinn Aðal frá Nýjabæ.

Vestlendingar gerðu það gott á Landsmóti hestamanna

Landmót hestamanna var haldið á félagssvæði Fáks í Víðidal í Reykjavík og lauk á sunnudaginn. Náðu Vestlendingar þar góðum árangri. Í Barnaflokki fór Kolbrún Katla Halldórsdóttir á Sigurrós frá Söðulsholti upp úr forkeppni í milliriðil þar sem hún hafnaði í 18. sæti. Í ungmennaflokki fóru þrír Vestlendingar í milliriðil; Þorgeir Ólafsson og Hlynur frá Haukatungu Syðri, Máni Hilmarsson og Lísbet frá Borgarnesi og Húni Hilmarsson og Neisti frá Grindavík. Húni hafnaði í 26. sæti í milliriðli en þeir Þorgeir og Máni fóru báðir í B-úrslit. Þar hafnaði Máni í 15. sæti en Þorgeir sem sigraði í B-úrslitum gerði sér lítið fyrir og varð í öðru sæti í A-úrslitum.

Þrír hestar frá Vesturlandi komust í milliriðil í B-flokki, Steggur frá Hrísdal sem hafnaði í 25. sæti, Þjóstur frá Hesti sem hafnaði í 16. sæti og Arna frá Skipaskaga sem fór áfram í B-úrslit þar sem hún endaði í öðru sæti með einkunnina 8,78, aðeins 0,09 kommum frá fyrsta sætinu. Í A-flokki voru einnig þrír hestar af Vesturlandi sem komust upp í milliriðla, Sproti frá Innri Skeljabrekku sem endaði í 20. sæti, Goði frá Bjarnarhöfn sem hafnaði í 26. sæti og Atlas frá Lýsuhóli sem stóð sig frábærlega og komst áfram í A-úrslit þar sem hann landaði öðru sætinu með einkunnina 8,84 eftir frábæra skeiðsýningu.

Í töltinu voru það Siguroddur Pétursson og Steggur frá Hrísdal sem sigruðu í B-úrslitum og riðu sig upp í 4.-5. sæti í A-úrslitum. Dreyrafélaginn Jakob Svavar Sigurðsson og Júlía frá Hamarsey höfnuðu í öðru sæti með einkunnina 9,06.

Vestlendingar áttu einnig mikið af góðum kynbótahrossum á mótinu og er þar helst að nefna Stóðhestinn Eldjárn frá Skipaskaga sem var efstur í sínum flokki með 8,44 í einkunn, Trymbill frá Stóra Ási sem hlaut 1. verðlaun fyrir afkvæmi og Aðall frá Nýjabæ hlaut Heiðursverðlaun fyrir afkvæmi.

Sjá nánar í Skessuhorni sem kom út í dag.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Látrabjarg er nú friðlýst

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur skrifað undir plagg til friðlýsingar Látrabjargs. Viðstaddir undirskriftina voru fulltrúar Bjargtanga, félags land-... Lesa meira