Hluti af forsíðu Skessuhorns 16. júlí 1998. Þarna klippir Davíð Oddsson á borðann og opnar göngin formlega.

Hvalfjarðargöngin tuttugu ára í dag

Þennan dag árið 1998 voru Hvalfjarðargöngin formlega vígð og umferð hleypt um þau. Það var Davíð Oddsson þáverandi forsætisráðherra sem klippti á borða og opnaði þau formlega. Davíð vitnaði við þetta tækifæri í hið forna máltæki; „Betri er krókur en kelda,“ og bætti því við að Hvalfjörðurinn hefði oft verið torfær kelda í samgöngulegu tilfelli. „Seint hefði menn þó grunað að hægt yrði að fara undir kelduna í stað þess að taka krókinn.“

Umferð um göngin hefur jafnt og þétt aukist frá opnun þeirra. Ríflega 2,5 milljónir bíla óku þar í gegn á síðasta ári. Alllengi hafa menn rætt að gera þyrfti önnur göng í ljósi þess að dagsumferð um þau nálgast það sem kallað er öryggismörk í evrópskum jarðgöngum, um 8000 bílar á dag. Ekki hefur þó verið tekin ákvörðun þar að lútandi enn sem komið er.

Göngin undir Hvalfjörð voru einkaframkvæmd. Í september á þessu ári, tuttugu árum og tveimur mánuðum eftir að þau voru gerð, verður göngunum skilað til íslenska ríkisins til eignar og rekstrar. Óhætt er að segja að göngin hafi á sínum tíma valdið byltingu í íslenskum samgöngum. Voru þetta fyrstu og einu jarðgöngin sem lögð hafa verið hér á landi undir sjó. Þau bættu samgöngur á landsvísu, gjörbyltu búsetu- og atvinnuháttum í sveitarfélögunum norðan þeirra og sameinuðu atvinnusvæði Vesturlands og höfuðborgarsvæðisins.

Líkar þetta

Fleiri fréttir