Fyrirlestur og sýning að Nýp á Skarðsströnd

Næstkomandi laugardag klukkan 15 mun Helga Kress, prófessor emeritus við Háskóla Íslands, flytja erindi að Nýp á Skarðsströnd í Dölum. Erindið kallar hún Blómmóðir besta. Sögð verður saga konunnar í lífi og ljóði Jóns Thoroddsen: Kristínar Ólínu Thoroddsen, sem fædd var Sívertsen (1833-1879). Sagan verður sögð út frá bréfaskriftum. Í erindi sínu tengir Helga kvenlýsingar í ljóðum og sögum Jóns Thoroddsen við konurnar í lífi hans. „Helga hefur m.a. skoðað móðurmyndina í ljóðum Jóns og borið hana saman við móður barna þeirra hjóna. Helga byggir erindið að hluta til á bréfum sem Kristín skrifaði eftir lát Jóns. Einnig kemur við sögu systir Kristínar sem að nokkru leyti var uppeldismóðir fjögurra sona Kristínar og Jóns,“ segir í tilkynningu.

 

Sýning um hönnun og endurbyggingu húsa

Jafnframt má geta þess að sunnudaginn 8. júlí var opnuð sýning að Nýp í nýju sýningarrými og er sýningin opin til sumarloka, skv. samkomulagi. Sýningin nefnist Ný hönnun og endurbygging á Skarðsströnd. „Í vetur hafa staðið yfir framkvæmdir að Nýp. Í viðbyggingu við íbúðarhúsið, þar sem áður var fjós, fjárhús og hesthús, hafa arkítektarnir í Studio Bua hannað gesta- og sýningarými. Sýnir hún hönnun endurbyggingarinnar í teikningum, ljósmyndum og módelum, ásamt nokkrum eldri ljósmyndum af húsinu. Í hönnun byggingarinnar var lögð áhersla á að nýta upprunalega steinveggi og gera þá sýnilega sem burðarvirki í rýminu. Efnisnotkunin opinberar „lifandi og hrátt,“ efni sem áhugavert fyrirbæri í sjálfu sér sem hefur fagurfræðilegt gildi. Verkefnið var framkvæmt af smiðum, iðnaðarmönnum og handverksfólki í heimabyggð.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Gestur úr Elkem til Veitna

Stjórn Veitna ohf. hefur ráðið Gest Pétursson forstjóra Elkem Ísland sem framkvæmdastjóra fyrirtækisins. Veitur eru stærsta veitufyrirtæki landsins og dótturfyrirtæki... Lesa meira