Jakob Björgvin Jakobsson bæjarstjóri Stykkishólmbæjar grillar pylsur fyrir harðduglegt vinnufólk að loknum vinnudegi. Ljósm. aðsend.

Bæjarstjórinn grillaði pylsur fyrir foreldra

Síðastliðinn fimmtudag kom saman hópur foreldra barna í Leikskólanum í Stykkishólmi auk kennara og annarra bæjarstarfsmanna. Tilefnið var að laga til í garði leikskólans. Hópurinn gróðursetti plöntur, smíðaði útieldhús fyrir börnin, lagði þökur í sár sem höfðu myndast í grasinu og gerði við leiktæki. „Þetta tókst mjög vel til og mæting var til fyrirmyndar og afköst góð,“ segir Sigrún Þórsteinsdóttir leikskólastjóri í samtali við Skessuhorn.

Ein móðir í leikskólanum er garðyrkjufræðingur að mennt og tók hún að sér skipulagningu í samvinnu við Jón Beck bæjarstarfsmann. Hún útbjó skema yfir þau verk sem þurfti að vinna og fólk gat svo gengið í þau verk sem hver og einn vildi. „Þetta gekk allt smurt og ekki skemmdi fyrir að það var glaðasólskin þennan dag,“ segir Sigrún. Þegar viðburðurinn var auglýstur var ákveðið að kynda upp í fólk með að segja að bæjarstjórinn myndi grilla að vinnu lokinni. „Hann er með barn hér í leikskólanum og okkur fannst því sniðugt að segja þetta en að sjálfsögðu sló hann bara til og grillaði pylsur fyrir alla. Enda frábær bæjarstjóri sem við höfum,“ segir Sigrún.

Líkar þetta

Fleiri fréttir