Gæludýraverslun opnuð á Akranesi

Verslunin Dýrabær var opnuð á Akranesi í byrjun júní og að sögn Maríu Þórunnar Friðriksdóttur umsjónarmanns verslunarinnar hafa viðtökur Skagamanna verið mjög góðar. „Ég þekki vel til þess vöruúrvals sem Dýrabær býður uppá, svo mér þótti upplagt að Dýrabær opnaði verslun hér og hafði samband við eigendurna sem tóku vel í það,“ segir María. Nýja verslunin er 130 fermetrar að stærð og stútfull af gæludýravörum fyrir hunda, ketti, fugla, nagdýr og fiska. „Hér er mjög gott vöruúrval og mikil áhersla á að selja aðeins gæðavörur og hágæða fóður,“ segir María.

Aðspurð segir María nóg hafa verið að gera í versluninni frá opnun. „Það eru svo mörg gæludýr á Akranesi. Maður sér það bara þegar maður horfir hér út um gluggann yfir daginn, það er alltaf fólk að labba framhjá með hunda. Svo eru það öll hin gæludýrin, en ég myndi halda að það væri gæludýr í öðru hverju húsi hér á Akranesi. Það er ánægjulegt að sjá Skagamenn færa viðskipti sín hingað til okkar, enda er alveg óþarfi að sækja þjónustu til Reykjavíkur þegar hún er til staðar hér,“ segir María að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir