Boðað til íbúafundar í Lyngbrekku í kvöld

Sveitarstjórn Borgarbyggðar hefur boðað til íbúafundar í Lyngbrekku á Mýrum í kvöld klukkan 20. „Við munum ræða við hagsmunaaðila á svæðinu og upplýsa eins og framast er unnt í kjölfar berghlaupsins úr Fagraskógarfjalli á laugardagsmorgninum,“ segir Gunnlaugur A Júlíusson sveitarstjóri í samtali við Skessuhorn. Sérfræðingar frá ýmsum stofnunum munu upplýsa um stöðu mála. Meðal þeirra veðurfræðingar, fulltrúi frá Veiðimálastofnun, Bændasamtökunum og fleiri. Gunnlaugur segir að almannavarnanefnd hafi ekki enn verið kölluð saman vegna þessara hamfara í dalnum. „Sýslumaður taldi ekki þörf á brýnu útkalli, en nefndin verður engu að síður kölluð til fundar,“ segir Gunnlaugur. Grjóthrun er enn talsvert úr sárinu þar sem berghlaupið varð. Af þeim sökum hefur verið lokað fyrir umferð báðum megin að jaðri skriðunnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir