Ekkert ferðaveður í kvöld fyrir tæki sem taka á sig vind

Veðurstofan hefur gefið út gula viðvörun þar sem varað er við ferðalögum síðdegis í dag og í kvöld á svæðinu við Faxaflóa, Breiðafjörð, Vestfirði, Strandir, Norðurland vestra og á miðhálendinu. Búist er við suðaustan hvassviðri eða stormi. Fer vindur í meira en 20 metra á sekúndu í þessum landshlutum þegar líður á daginn og í kvöld. Auk þess má búast við snörpum vindhviðum við Hafnarfjall og á Kjalarnesi. Þannig er óráðlegt að fara með hestakerrur, hjólhýsi, húsbíla og aðra vagna um þessa vegi, tæki sem taka á sig mikinn vind. Viðvörun Veðurstofunnar nær frá klukkan 18 í dag og til miðnættis.

Til gamans má geta þess að þennan sama dag fyrir 16 árum gerði mikið hvassviðri á Vesturlandi. Til marks um vindhraðann þá fauk uppblásinn hoppukastali í einni vindhviðu um fjögur hundruð metra á Akranesi að morgni 8. júlí 2002.

Líkar þetta

Fleiri fréttir