Milljónir rúmmetra hrundu úr Fagraskógarfjalli

Skriðan sem féll í morgun úr Fagraskógarfjalli á Mýrum er tvímælalaust með stærstu jarðvegsskriðum sem fallið hafa í síðari tíð hér á landi. Milljónir rúmmetra frá fjallsrótum og upp undir topp á fjallinu hrundu og nær skriðan um hálfan kílómetra frá fjallinu. Gera verður ráð fyrir að gríðarleg úrkoma í vor og sumar hafi hleypt vatnssósa jarðveginum af stað. Skriðan stíflaði efsta hluta Hítarár nokkru neðan við Hítarvatn og safnast nú vatn fyrir í lóni ofan hennar. Neðan við stífluna er töluvert minna rennsli í ánni, eins og sést á einni af meðfylgjandi myndum.

Talið er að skriðan hafi fallið seint í nótt, en ung kona á bænum Hítardal vaknaði á sjötta tímanum við drunur sem hún taldi hafa verið þrumur. Í morgun blasti svo veruleikinn við, þar sem stórt skarð hefur myndast í fjallinu.

Lögregla hefur nú lokað vegslóða sem liggur að skriðunni, enda er enn að falla grjót úr fjallinu og má fastlega gera ráð fyrir að fleiri skriður geti fylgt í kjölfarið. Á meðfylgandi mynd sést að ofan við stykkið sem fór úr fjallinu er hár bakki sem líklegt má telja að falli.

Þegar eykst í lóninu ofan við stífluna má gera ráð fyrir að áin finni sér á endanum farveg í smáánni Tálmá, hliðará sem rennur til suðurs neðan við stífluna. Heimamenn eru nú að kanna aðstæður og gera má ráð fyrir að þess verði freistað að rjúfa skarð í stífluna til að Hítará finni sinn rétta farveg.

Við veiðistaðinn Hraunsnef í Hítará hefur vatnsborð lækkað um hálft annað fet frá í morgun.

Skriðan féll á að giska hálfan kílómetra niður á láglendið.

Mikil hrunhætta er úr fjallinu og hefur lögregla lokað vegslóðanum sem liggur að svæðinu.

Lón er tekið að myndast ofan við stífluna. Þegar það yfirfyllist má gera ráð fyrir að áin leiti sér farvegs niður Tálmá, nema farið verði með stórvirkar vinnuvélar á svæðið til að rjúfa stífluna þannig að Hítará leit rétta farvegar síns. Ljósm. Finnbogi Leifsson.

Líkar þetta

Fleiri fréttir