Inga Lind Karlsdóttir með flottan hæng sem hún veiddi nýverið í Þverá í Borgarfirði. Ljósm. gb.

Óbreytt röðun ánna sem mest hafa gefið

Ágæt laxveiði var síðustu vikuna í laxveiðiánum þrátt fyrir fremur lágt hitastig. Mikið af nýgengnum fiski er víða og vatnsbúskapurinn góður eins og gefur að skilja. Komnar eru nýjar veiðitölur á vef Landssambands veiðifélaga. Samantektin er frá veiði í lok síðasta miðvikudags. Röð efstu þriggja ánna á landinu er óbreytt frá síðustu viku. Þverá og Kjarará sem fyrr efst á listanum og eftir mjög góða veiðiviku er veiðin komin í 843 laxa. Veiðin síðastliðna viku var 391 lax. Ef veiðin í Þverá og Kjarará er borin saman við svipaðan tíma í fyrra þá höfðu alls veiðst 656 laxar og veiðin er því orðin 187 löxum meiri núna og lofar það góðu með veiðisumarið. Í öðru sæti er Urriðafoss í Þjórsá sem er kominn í 577 laxa og Norðurá er skammt undan í þriðja sæti með 557 laxa. Vikuveiðin þar var 207 laxar, mjög svipuð og á sama tíma í fyrra.

Af öðrum vestlenskum ám er Haffjarðará í fimmta sæti með 320 laxa, úr Langá hafa veiðst 196, Brennan hefur gefið 188 laxa og Grímsá með Tunguá 175 í tíunda sæti. Einungis á eftir að hefja veiði í Norðlingafljóti, en þar er ráðgert að opna 18. júlí.

Líkar þetta

Fleiri fréttir