Keppnishópur UMSB á unglingalandsmóti UMFÍ í Borgarnesi 2010.

Landsmót UMFÍ hefur tekið breytingum í tímans rás

Landsmót UMFÍ fer fram dagana 12.-15. júlí á Sauðárkróki í Skagafirði og verður talsvert annar bragur á mótinu í ár. Skessuhorn setti sig í samband við Sigurð Guðmundsson, sem tók við sem framkvæmdastjóri UMSB fyrr á þessu ári, á skrifstofu hans í Borgarnesi. Hann er fenginn að segja frá þeim breytingum sem fyrirhugaðar eru á mótinu. „Ég vann hjá Ungmennafélagi Íslands í nokkuð mörg ár og þekki Landsmótið vel. Ég tók sjálfur þátt í mörgum mótum þar sem sundið var mín aðal íþrótt,“ segir Sigurður og minnist þess að Landsmótið árið 1997 sem haldið var í Borgarnesi hafi verið hans uppáhalds mót en það ár var hlaupabrautin og sundlaugin tekin í gagnið þar í bæ.

Nú verður Landsmótið með breyttu sniði og mótið eins og það þekkist heyrir sögunni til. „Landsmótið hefur alltaf einkennst af stigakeppni milli félaga. Nú er búið að þurrka þá keppni út. Þess í stað verður mótið meira eins og Unglingalandsmótið sem fer fram ár hvert um Verslunarmannahelgi.“

 

Hver sem er getur tekið þátt

Með breytingunum er UMFÍ að hvetja alla einstaklinga til að taka þátt en ekki bara keppnisfólk þó vissulega sé keppni einnig að finna í dagskránni. „Þú gætir til dæmis,“ segir Sigurður og bendir á blaðamann. „Hóað saman tveimur stelpum með þér og þá getið þið tekið þátt í körfubolta, þrjá á þrjá. Þú gætir líka farið með vinkonum þínum og keppt í brennó. Maður þarf ekki að skrá sig undir neinu félagi eða vera á vegum neins félags,“ segir Sigurður og segir þessar breytingar vera í takti við samfélagið í dag. „Hin Landsmótin voru aðeins farin að dala og það var kominn tími á breytingar. Eina sem gæti reynst erfitt er að ná uppi liðsstemningu eins og í gamla daga þar sem allir voru eins klæddir sínum liðsbúningum. Ég ætla að gera mitt besta til að ná fólki í galla og er vongóður að það takist.“

 

Þurfum að vera í takti við tímann

Fjölmargar greinar verður hægt að taka þátt í sem og sterku frjálsíþróttamóti. Eins hittir þannig á að Landsmót 50+ verður haldið sömu helgi en það mót er árlegt. „Þetta verður bara íþróttaveisla, geggjað stuð og gaman. Þú þarft ekki að vera hörð keppnismanneskja til að taka þátt heldur. Það verður nánast allt sem þú getur ímyndað þér í boði og allir ættu að finna sér eitthvað við hæfi.“

En eru þessar breytingar til bóta, spyr blaðamaður. „Mér finnst breytingarnar frábærar og þess virði að prófa þetta,” svarar Sigurður. „Tímarnir eru að breytast aðeins og við þurfum að vera í takti við það sem er að gerast í þjóðfélaginu. Fólk er mikið farið að hreyfa sig sjálft. Það er til dæmis hægt að finna skokkhópa úti um allt. Auðvitað er líka gaman að hafa keppnina fyrir þá sem vilja en það eru svo margir sem vilja ekki fara í keppnina heldur bara njóta og skemmta sér. Það verður gaman að sjá hvernig þetta kemur út,“ segir hann að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir