Uppgreftri er nú lokið á svæðinu í sumar, en þráðurinn tekinn upp á næsta sumri. Ljósm. Rögnvaldur Guðmundsson.

Vinnu við uppgröft víkingaskálans í Ólafsdal lokið að sinni

Fornleifafræðingar frá Fornleifastofnun Íslands hafa undanfarnar vikur unnið af krafti við uppgröft víkingaaldarskálans sem fannst á síðasta ári í Ólafsdal. Skálinn og aðrar tóftir fundust óvænt þegar unnið var að skráningu á minjum frá tíma búnaðarskólans sem var starfræktur í dalnum árin 1880-1907. Sást móta fyrir útlínum hans þegar dróni var sendur yfir svæðið til myndatöku. Skálinn er ríflega 20 metra langur og er talinn vera frá 9. eða 10. öld. Vinnu við uppgröftinn er nú lokið á staðnum en þráðurinn verður tekinn upp að nýju á sumri komanda.

Styrkir til verksins hafa bæði fengist frá Fornminjasjóði og Minjavernd. Rannsóknaverkefni þetta mun taka a.m.k. þrjú ár þar sem allmargar fornar byggingar eru á svæðinu sem vonir eru bundnar við að varpi ljósi á um eða yfir þúsund ára sögu dalsins. Auk þessarar vinnu mun uppbygging Minjaverndar á húsunum í Ólafsdal hefjast innan tíðar, en eins og fram hefur komið í Skessuhorni verður byrjað á mjólkurhúsinu/vatnshúsinu við gamla búnaðarskólann.

Ólafsdalsfélagið er með opið klukkan 12-17 alla daga fram til 19. ágúst. Á Ólafsdalshátíðinni laugardaginn 11. ágúst mun svo Birna Lárusdóttir fornleifafræðingur leiða fræðslugöngu að minjasvæðinu klukkan 11, áður en formleg dagskrá hátíðarinnar hefst klukkan 13.

Líkar þetta

Fleiri fréttir