Fjölbýlishús sem nú er risið á lóðinni Borgarbraut 57 liggur samsíða lóð númer 55. Ný gata meðfram gafli hússins mun því skerða athafnasvæðið sem nú tilheyrir Borgarbraut 55.

Þrengt að athafnalóð á Borgarbraut 55

Á fundi byggðarráðs Borgarbyggðar 28. júní síðastliðinn mættu til viðræðna fulltrúar eigenda fasteignarinnar að Borgarbraut 55 í Borgarnesi, þeir Þórir Haraldsson forstjóri Líflands, Þórarinn V. Þórarinsson stjórnarmaður í Líflandi og Sigurður Einarsson frá Bifreiðaþjónustu Harðar. Í fundargerð segir að til umræðu hafi verið Borgarbraut 55 en þar reka fyrrgreind fyrirtæki verslun og þjónustu í eigin húsnæði. Samkvæmt heimildum Skessuhorns snúast viðræðurnar um hvernig brugðist verður við þeirri hugmynd að gerð verði innkeyrsla að bílastæðum á baklóð fjölbýlishúss og hótels við Borgarbraut 57 og 59 en hún myndi liggja samsíða lóð númer 55. Ef sú innkeyrsla verður gerð mun athafnasvæði skerðast á lóðinni númer 55. Samkvæmt heimildum Skessuhorns hefur m.a. verið rætt um uppkaup á fasteigninni Borgarbraut 55 og að rekstraraðilar fái úthlutað athafnalóð á öðrum stað í Borgarnesi. Forsvarsmenn málsaðila verjast þó nánari frétta af málinu, en viðræðum verður haldið áfram.

Líkar þetta

Fleiri fréttir