Styrkvegafé í Borgarbyggð skorið niður um þriðjung

Sveitarfélög á landsbyggðinni þurfa að sækja um svokallað styrkvegafé til Vegagerðarinnar ætli þau að láta lagfæra vegi sem eru í þeirra umsjón. Um er að ræða malarvegi sem taka við þar sem þjónustu Vegagerðarinnar lýkur svo sem þar sem jarðir hafa farið í eyði eða gamlir vegir liggja að sumarhúsahverfum svo dæmi séu nefnd. Venju samkvæmt sótti Borgarbyggð um úthlutun úr styrkvegasjóði. Í svari sem Vegagerðin sendi nýverið kemur fram að Borgarbyggð fær 1,7 milljón króna úthlutað til vegheflunar og annars viðhalds allra vega í dreifbýli sveitarfélagsins. Það er 30% samdráttur í krónum talið frá úthlutun síðasta árs. Ekki kemur fram í svari Vegagerðarinnar af hverju styrkþegafé dregst saman um þriðjung milli ára.

Gunnlaugur A Júlíusson sveitarstjóri segir að viðhald þessara vega hafi verið fært til sveitarfélaganna frá ríkinu á sínum tíma í óþökk þeirra. „Þessir vegir eru malarvegir sem taka við þar sem þjónustu Vegagerðarinnar lýkur. Í landstóru sveitarfélagi eins og Borgarbyggð er getur hver maður séð að þessi upphæð er alltof lág og engan veginn nægjanleg til að halda þessum vegum í horfinu, hvað þá til að bæta þá,“ segir Gunnlaugur.

Líkar þetta

Fleiri fréttir