Skagamenn sýndu Krafti stuðning í verki

Á mánudaginn komu Skagamenn og stuðningsmenn ÍA saman í hátíðarsalnum á Jaðarsbökkum og perluðu armbönd til styrktar Krafti, stuðningsfélagi fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur þeirra. Hátíðarsalurinn var þétt setinn strax frá fyrstu mínútu en alls tóku um 200 manns á öllum aldri þátt í viðburðinum. Allir voru mjög einbeittir við perlið enda Perlubikarinn svokallaði í húfi, en hann hlýtur það íþróttafélag eða sveitarfélag sem perlar flest armbönd á innan við fjórum klukkustundum. Skagamenn perluðu samtals 2.041 armband en dugði það því miður ekki til að slá Sunnlendingum við sem tróna á toppnum með 2.308 armbönd. Skagamenn sitja því í þriðja sæti á eftir Akureyringum sem perluðu 2.302 armbönd og enn eiga nokkur íþróttafélög eftir að reyna við bikarinn.

Armböndin sem um ræðir eru perluð í fánalitunum og eru með áletruninni „Lífið er núna“ og eru seld til styrktar Krafti. Hægt er að kaupa armböndin á vefsíðu Krafts www.kraftur.org, í Útilíf, Errea, Jóa Útherja og Ölveri.

Líkar þetta

Fleiri fréttir