Kolbrún Katla Halldórsdóttir og Sigurrós komust í úrslit í barnaflokki. Ljósm. Ólafur Ingi Ólafsson.

Landsmótið formlega sett í kvöld

Landsmót hestamanna verður sett formlega í kvöld við hátíðlega athöfn sem hefst klukkan 19:30 í Víðidal. Setningarathöfnin hefst að venju með hópreið fulltrúa allra aðildarfélaga Landssambands hestamanna inn á aðalkeppnisvöllinn og hefur hvert félag að þessu sinni tilnefnt þrjá fulltrúa til að koma fram fyrir sína hönd og er það gert til að fulltrúar allra komist fyrir með góðu móti. Að hópreið lokinni flytur Magni Ásgeirsson lag, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri setur mótið og Dísella Lárusdóttir óperusöngkona syngur þjóðsönginn.

Dagskrá mótsins heldur áfram í dag. Þar má nefna milliriðla A flokks gæðinga sem hefjast kl. 15:30 á aðalkeppnisvellinum og segir Sigurður Ægisson, yfirdómari mótsins að aldrei áður hafi sést annar eins milliriðill, slíkur sé hestakosturinn. Á kynbótavellinum hófst dagskrá kl. 8 í morgun með yfirlitssýningum kynbótahryssa en margar frábærar hryssur hafa komið fram á mótinu, margar þeirra afkvæmi verðlaunahesta sem eru að gera það gott á mótinu og sem enn frekari væntingar eru bundnar við, segir Þorvaldur Kristjánsson, hrossaræktarráðunautur og kynbótadómari. Þá hefst forkeppni í tölti upp úr kl. 20 í kvöld, að lokinni setningarathöfninni.

Fjölbreytt dagskrá er alla Landsmótsdagana utan hinnar hefðbundnu keppnidagskrár. Fræðsludagskrá er daglega í Horses of Iceland tjaldinu og utan á tjaldinu er sýnd saga hrossaræktar á Íslandi frá 1918-2018 og er hún hluti af dagskrá fullveldisafmælis Íslands.

Sýnikennsla á vegum Félags tamningamanna verður í dag, leiksvæði eru opin fyrir börnin með hoppuköstulum og fleiru skemmtilegu, markaðstjald er opið við aðalvöllinn, Mathöll er starfrækt í og við Reiðhöllina og í kvöld leikur Stebbi Jak í gítarpartýi á mótssvæðinu, svo fátt eitt sé nefnt.

Áætlað er að um 4.000 gestir hafi sótt Landsmótið heim í gær en mótshaldarar vonast til að gestir verði 10.000 þegar hátíðarhöldin ná hámarki á föstudag og um helgina. Miðasala á Landsmót er á vefnum landsmot.is og tix.is og hægt að kaupa þar bæði helgarpassa og dagsmiða.

Líkar þetta

Fleiri fréttir