Sigurður Oddur og Guðbjörg á Oddsstöðum.

Fullbókað í hestaferðir sumarsins

Það var líf og fjör í gamla íbúðarhúsinu á Oddsstöðum I í Lundarreykjadal þegar blaðamann bar að garði síðastliðinn föstudag. Þá var hópur 21 sænskra hestamanna að setjast að hádegishressingu, en hópurinn hafði komið með flugi kvöldið áður. „Þetta er óvenjustór hópur sem dvelur hjá okkur núna þessa fyrstu viku útlendingatímabilsins hjá okkur. Það var yfirbókað í ferðina en við náum að leysa það. Fjölskyldan flutti einfaldlega út og í sumarhús sem við eigum hér austan við bæinn. Hluti hópsins gistir í smáhýsum en aðrir hér í gamla bænum og þannig náum við að koma öllum fyrir,“ segir Sigurður Oddur þegar blaðamann bar að garði. Hjónin Sigurður Oddur Ragnarsson og Guðbjörg Ólafsdóttir eiginkona hans reka saman hestatengda ferðaþjónustu á Oddsstöðum, nú í samstarfi við tengdadóttur þeirra Denise Weber sem fluttist fyrir nokkrum árum til Íslands, starfaði hjá þeim og nam hestafræði á Hólum í Hjaltadal. „Hún byrjaði að vinna hjá okkur og svo felldu þau hugi saman, hún og sonur okkar Sigurður Hannes sem er að læra vélfræði. Denise er nú komin á fullt í þetta með okkur. Þannig sjáum við fram á að ættliðaskipti verða á bænum með tíð og tíma og fögnum við því,“ segja þau Guðbjörg og Oddur sem rekið hafa hestatengda ferðaþjónustu í 27 ár.

Nánar er rætt við þau í Skessuhorni sem kom út í dag.

Líkar þetta

Fleiri fréttir