Sviptur ökurétti ævilangt

Maður var í Héraðsdómi Vesturlands 13. júní sl. dæmdur í 45 daga fangelsi fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og fyrir að hafa í vörslu sinni fíkniefni. Maðurinn var stöðvaður af lögreglu við akstur á höfuðborgarsvæðinu haustið 2016. Reyndist hann óhæfur til að aka bifreið vegna áhrifa ávana- og fíkniefna. Í blóðsýni sem tekið var úr manninum mældist amfetamín, MDMA og tetrahýdrólkannabínól. Þá var maðurinn með tæp átta grömm af marijúana og tæp tvö grömm af kókaíni í bílnum. Maðurinn játaði brot sín skýlaust fyrir dómi. Auk þess að vera dæmdur til 45 daga fangelsisvistar var maðurinn sviptur ökurétti ævilangt. Þá var honum gert að sæta upptöku efnanna sem fundust í bílnum og að greiða þóknun verjanda síns, ferðakostnað hans og annan sakarkostnað, samtals um 400 þúsund krónur.

Líkar þetta

Fleiri fréttir