Siglingasamband Íslands með æfingabúðir á Akranesi

Dagana 1. til 8. júlí stendur Siglingasamband Íslands (SIL) fyrir æfingabúðum í kænusiglingum á Akranesi. Í æfingabúðunum koma saman keppnishópar frá siglingafélögum víða af landinu. Þessar búðir voru haldnar á Akranesi árið 2015 og nú varð bæjarfélagið aftur fyrir valinu. Í ár eru þátttakendur frá Nökkva á Akureyri, Þyt í Hafnarfirði og Brokey í Reykjavík. Bátarnir eru af gerðinni Optimist, Laser og Topper-Topaz, en þeir síðastnefndu voru notaðir á námskeiði sem Sigurfari hélt sumarið 2017. Við þessi tækifæri eru gjarnan fengnir reyndir þjálfarar úr hinum alþjóðlega siglingaheimi. Í ár kemur Flor Cerutti, sem starfar við siglingaþjálfun á Spáni. Hún var fulltrúi Paraguay á Ólympíuleikunum í Peking 2012 og var þá fyrsti keppandinn frá því landi til að taka þátt í siglingum á leikunum.

„Svona viðburður með þrautreyndu fólki í faginu er mikill fengur bæði bæjarfélaginu og Sigurfara,“ segir Guðmundur Benediktsson formaður Sigurfara – siglingafélags Akraness. „Nú hefur félagið eignast báta af gerðinni Optimist og hefur góða von um fasta aðstöðu. Þjálfaraskortur hefur háð fleiri félögum en okkar, en siglingabúðirnar munu væntanlega verða til að bæta úr því. Það verður því líflegt við höfnina og Langasand næstu daga, þar sem sjá má fullt af litlum seglum svífa um. Siglingabúðunum lýkur svo á laugardaginn með siglingakeppni,“ segir Guðmundur.

Líkar þetta

Fleiri fréttir