Guðrún Bjarnadóttir kynnir bók sína á Hvanneyrarhátíðinni

Guðrún Bjarnadóttir sem nýlega gaf út bókina Grasnytjar á Íslandi, þjóðtrú og saga, mun kynna bók sína fyrir gestum og gangandi á komandi Hvanneyrarhátíð sem fram fer laugardaginn 7. júlí á Hvanneyri í Borgarfirði. „Ég hef alltaf haft gaman af gróðri og villtum jurtum. Amma mín kenndi mér að þekkja plönturnar þegar ég var barn,“ segir Guðrún. Hún tekur það fram með bros á vör að hún hafi lítið verið að fylgjast með því sem amma sín sagði þá en seinna hafi það allt saman rifjast upp fyrir Guðrúnu. Hún hefur síðan nýtt sér það við rit og störf.

Guðrún áttaði sig fljótt á því þegar hún starfaði sem landvörður í Mývatnssveit og í þjóðgarðinum í Skaftafelli að fólk sem hún fór með í grasagöngur á þeim tíma hafði lítinn áhuga á einungis grasafræðinni. „Ég lagði það á mig að læra latnesku heitin en eitthvað svona fræðilegt gjörsamlega drap fólk úr leiðindum. Ég áttaði mig þannig mjög snemma á að ef maður hafði einhverjar auka upplýsingar eins og til hvers plantan var notuð eða einhverja þjóðtrú jafnvel, þá fyrst fóru eyrun að hreyfast og fólk hlustaði og mundi þá frekar tegundina,“ segir Guðrún.

 

Tilgangurinn að vekja athygli fólks á náttúrunni

Bókin er gefin út sem skemmtiefni og er ætluð almenningi á öllum aldri. „Síðan bókin kom út þá hef ég til dæmis fengið hringingar frá foreldrum segja mér frá börnum sínum sem spyrja um plönturnar. Hvað heitir þessi planta? Og þessi planta,“ segir Guðrún sem tekur undir að bókin sé barnvæn. „Tilgangur bókarinnar er að vekja augu fólks fyrir náttúrunni í kringum okkur og grasnytjasögunni og að það er í lagi að nýta náttúruna eins og við gerðum en verðum bara að gera það af virðingu og ekki tína of mikið af jurtinni og hugsa fallega um umhverfið.“

Guðrún mun sem fyrr segir kynna bókina sína á Hvanneyrarhátíðinni 7. júlí næstkomandi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir