Vatnsblöðrustríð í boði bláa hverfisins vakti mikla lukku. Ljósm. Inga Dóra Halldórsdóttir.

Heimboð í hverfin markar upphaf Brákarhátíðar

Brákarhátíð í Borgarnes fer vel af stað og láta bæjarbúar vætutíð ekki koma í veg fyrir góða skemmtun. Á mánudaginn buðu gulir þeim bláu og rauðu í heimsókn í sitt hverfi. Farið var í ratleik, fótboltaleiki og gætt sér á pönnukökum. Á miðvikudag nýttu bláir sér góða veðrið og buðu hinum hverfunum í vatnsblöðrustríð. Myndaðist vægast sagt heljarinnar sumarstemning í sólinni hjá börnum sem fullorðnum. Á fimmtudag lét hefðbundið sumarveður hér um slóðir aftur gera vart við sig, en það kom ekki að sök því rauða hverfið bauð bláum og gulum í félagsmiðstöðina Óðal þar sem pylsur voru grillaðar ofan í mannskapinn. Hljómlistarfélag Borgarfjarðar spilaði síðan tónlist fyrir mannskapinn.

Í kvöld fara fram götugrillin og á morgun verður hátíðardagskrá í Brákarey þar sem allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi og hefst dagskrá snemma morguns þar sem Björgunarsveitin Brák býður gestum í siglingu í kringum eyjuna.

Líkar þetta

Fleiri fréttir