Frumort kvæði um Þorgerði Brák

Hér að neðan má sjá frumort kvæði sem Rúnar Kristjánsson á Skagaströnd sendi Skessuhorni í tilefni Brákarhátíðar sem fram fer í Borgarnesi um helgina. Kvæðið er um hlutskipti og örlög Þorgerðar Brákar sem hátíðin í Borgarnesi er einmitt kennd við.

 

Mín saga er eydd af tímans tönn,

en tilvera mín var full af önn.

Sem ambátt ég löngum þurfti að þjást

en þó gat ég einum sýnt þá ást

sem ól í sér tryggð sem aldrei brást.

 

Þorgerður hét ég og þar með „brák,”

ég þótti hæf til að fóstra strák,

sem höfðingjasonur og hetja var

og hafði í sér skáldsins eðlisfar.

Ég kenndi honum margar menntirnar.

 

En veröldin öll mér var þó dimm

og víkingatrúin hörð og grimm.

Og illt er að ráða ekki eigin för,

– með annarra vald, – á lægstu skör,

grípandi yfir öll sín kjör.

 

Ég dó hér forðum – ég drepin var,

og deyjandi sökk í kaldan mar.

Skalla-Gríms æðið var ógurlegt,

engan mann hef ég slíkan þekkt,

það náði ekki yfir hann nokkur sekt.

 

„Ætlarðu að drepa hann Egil minn,

ætlarðu að drepa soninn þinn?“

hrópaði ég  –  því hann var ær,

hugsunarlaus og viti fjær,

en sonurinn ungi mér ósköp kær!

 

Þá snerist hann að mér í óðri heift,

andrúm var síst til griða leyft.

Hann ofsann magnaði upp í sér,

ég undan flýði sem vitað er,

með hann eins og naut á hælum mér.

 

Ég heyrði más hans og öskrin öll,

sem ólmur griðungur færi um völl.

Og þegar ég niður nesið rann

ég nötraði af ótta og geig við hann,

því trylltan sá ég þar tröllkarl þann.

 

Af bjarginu hljóp ég beint á sund

á brúnina hann kom á sömu stund,

reif þar upp feikna stóran stein,

stefndi honum til að gera mein,

– sárari varð mér ei sending nein.

 

Hörð og drepandi herðum á

hún þar mér skall og lífi frá

dreif mig í kafið dauðans und,

deyja ég hlaut á þeirri stund,

– blóð mitt litaði Brákarsund.

 

En ennþá sveimar minn andi þar

og endurlifir þá tíð sem var,

er Skallinn mikli þar sköpum réð,

ég skörung engan hef slíkan séð,

hann hamið gat allt – nema eigið geð.

 

Um Brákarsund þar sem blóð mitt rann

ég berst með vindinum þegar hann

æðir um flötinn ört og létt,

minn andi er frjáls – ég gerði rétt,

því Agli til verndar var ég sett!

 

-Rúnar Kristjánsson

Líkar þetta

Fleiri fréttir