Ágúst Mogensen, sérfræðingur í forvörnum hjá VÍS, Ingþór Guðjónsson, framkvæmdastjóri hjá ÞÞÞ og Snorri Guðmundsson, skoðunarmaður hjá VÍS á Akranesi.

Forvarnarverkefni VÍS og ÞÞÞ ýtt úr vör

Vátryggingafélag Íslands og Bifreiðastöð ÞÞÞ á Akranesi eru í sameiningu að ýta úr vör forvarnarverkefni. Snýr það að vörumóttöku og vöruafhendingu. Skessuhorn ræddi um málið við Snorra Guðmundsson, skoðunarmann hjá VÍS á Akranesi, Ágúst Mogensen sérfræðing í forvörnum hjá VÍS og Ingþór Guðjónsson framkvæmdastjóra hjá ÞÞÞ. „Til að geta ráðist í þetta verkefni höfum við farið yfir hvernig þessum málum er háttað hjá fyrirtækjum á Vesturlandi. Bifreiðastöð ÞÞÞ er stærsta flutningafyrirtækið í landshlutanum. Þeir þekkja vel aðstæður víða á svæðinu, einkum á Akranesi. Því þótti okkur kjörið að hefja þetta verkefni á Akranesi og í samstarfi við þá,“ segir Snorri.

Markmiðið með forvarnarverkefninu er að koma í veg fyrir óhöpp og tjón. „Í víðu samhengi er hægt að skipta ástæðum óhappa og tjóns við vöruafhendingu og -móttöku í þrennt; ökumann, ökutæki og aðstæður. Í þessum fasa verða aðstæðurnar skoðaðar. Hlutverk okkar hjá VÍS er að kanna þær, í samstarfi við ÞÞÞ og fyrirtæki í bænum. Þá horfum við til dæmis til plássins, merkinga og skilta en einnig yfirborðsástands þar sem fyrirtæki taka á móti vörum,“ segir Ágúst.

Ingþór segir að aðkoma fyrir stóra bíla og lyftara vegna vöruafhendingar sé misgóð á Akranesi. „Sums staðar er hún til fyrirmyndar, annars staðar ágæt en því miður er henni nokkuð víða ábótavant. Nú er að hefjast samstarf okkar hjá ÞÞÞ og VÍS um að laga þessi mál með fyrirtækjunum. Markmiðið er að reyna að minnka tjón eins mikið og mögulegt er, því það er ekki hagur neins að tjóna,“ segir Ingþór.

Nánar í Skessuhorni vikunnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir