Perlað fyrir Kraft á Akranesi

Næstkomandi mánudag 2. júlí á milli klukkan 15:00 og 19:00 ætlar Íþróttabandalag Akraness að perla armbönd til styrktar Krafti, stuðningsfélagi fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur. Perlað verður í hátíðarsalnum í Íþróttabandalagi Akranes við Jaðarsbakka. Það íþróttafélag og/eða bæjarfélag sem perlar flest armbönd á fjórum klukkustundum fær svokallaðan Perlubikar sem nú er hjá Sunnlendingum sem perluðu 2.308 armbönd á fjórum klukkustundum þann 20.júní síðastliðin. Sunnlendingar tóku þá bikarinn frá Akureyringum sem höfðu perlað 2.302 armbönd. Akurnesingar stefna að sjálfsögðu að því að slá Sunnlendingum við og fá bikarinn upp á Skaga.

Armböndin sem um ræðir eru perluð í fánalitunum og eru með áletruninni „Lífið er núna“ og eru seld til styrktar Krafti. Armbörnin eru auðveld í samsetningu og ættu bæði börn og fullorðnir að geta perlað þau. Öllum Akurnesingum og öðrum stuðningsmönnum er velkomið að taka þátt. Þetta er kjörið tækifæri til að eiga góða stund með fjölskyldu og vinum og að láta gott af sér leiða. Nánari upplýsingar er hægt að nálgast á Facebook undir viðburðinum Perlað af Krafti með Akranesi og ÍA.

Líkar þetta

Fleiri fréttir