Horft í átt að Reykhólum. Ljósm. úr safni/mm.

Leggja til nýja veglínu um Reykhólasveit – fréttaskýring

Reykhólahreppur boðaði í gær til opins fundar þar sem kynntar voru niðurstöður norsku verkfræðistofunnar Multiconsulant og ráðgjafarstofunnar Alta á rýnivinnu vegna endurbóta á Vestfjarðavegi. Það var Reykhólahreppur sem setti þessa vinnu í gang í kjölfar þess að sveitarfélagið fékk í vor utanaðkomandi styrk til aukinna rannsókna á vænleika ólíkra leiða í vegagerð um sveitarfélagið. Mál þetta er kafli í áratuga sögu umræðu og deilna um vegagerð um sveitarfélagið sem náð hefur hámarki á liðnum áratug vegna deilna um Teigsskóg. Nú eru íbúar, einkum á suðurfjörðunum orðnir verulega óþreyjufullir eftir að framkvæmdir hefjist á svæðinu þannig að vegtengingar batni. Fjölmenni mætti á íbúafundinn sem haldinn var í grunnskólanum á Reykhólum, eða á að giska þriðjungur íbúa í sveitarfélaginu. Samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðu þessarar skoðunar Multiconsulant og Alta er mælt með að farin verði svokölluð Reykhólaleið (R-leið) og vegtenging með um 800 metra brú reist yfir Þorskafjörð milli Staðar á Reykjanesi og Skálaness. Með þessari tillögu yrði horfið frá vegagerð um þrætueplið Teigsskóg, jarðgangaleið undir Hjallaháls eða um aðrar leiðir til uppbyggingar framtíðar vegtengingar við Vestfirði. Fram hafa komið efasemdir fulltrúa Vegagerðarinnar með niðurstöðu Norðmannanna, eins og fjallað er um í þessari fréttaskýringu.

 

Sveitarstjórn horfir til kosta R-leiðar

Í tilkynningu frá Reykhólahreppi eftir íbúafundinn í gær segir orðrétt: „Vestfjarðavegur um Reykhóla gæti verið forsenda sátta og tafarlausra framkvæmda.“ Þá segir að ný veglína fyrir Vestfjarðaveg sem lægi meðfram Reykhólum og á brú yfir mynni Þorskafjarðar sé tillaga Multiconsult. Um tilurð þessarar vinnu norsku ráðgjafarstofunnar segir í tilkynningu Reykhólahrepps: „Hópur íbúa í Reykhólahreppi taldi mikilvægt að leið framhjá Reykhólum, svokölluð R leið, yrði skoðuð í rýni norsku ráðgjafanna. Hún gæti verið góð málamiðlun. Niðurstaða rýninnar er að sú leið sé vel fær og í raun hagkvæmur kostur með tilliti til kostnaðar, samfélags- og umhverfismála.“ Þá lægi láglendisvegur meðfram ströndinni, brú yrði nægilega há fyrir smærri skip og þangskurðarpramma og tryggði vatnsskipti að fullu. Byggt er á nýjum upplýsingum um dýpi í mynni Þorskafjarðar. Þá bendir Reykhólahreppur á kosti þess að Reykhólaþorpið kæmist í alfaraleið og yrði mikilvægur þjónustustaður, umhverfisáhrifin yrðu mun minni en af Þ-H veglínunni um Teigsskóg og umhverfismat muni ekki seinka framkvæmdum. „Kosturinn fellur inn í skipulagsferlið sem nú er í gangi og mun ekki tefjast vegna þessa,“ segir í tilkynningu sveitarstjórnar Reykhólahrepps. „Að mati Multiconsult er kostnaður við R leiðina sambærilegur við þá veglínu (Þ-H), sem Vegagerðin hefur valið um sveitina. Hægt yrði að hefjast handa strax við uppbyggingu, þannig að samfélagsávinningur yrði mikill, hægt er að ljúka skipulagi og framkvæmdum á um þremur til fjórum árum, frá því að hafist yrði handa. Áhersla er lögð á fallega hönnun brúarinnar, sem þannig yrði aðdráttarafl í þessu einstaka umhverfi og náttúru sem þarna blasir við. Stytting á núverandi vegi um rúmlega 17 km og stytting á aksturstíma um 36 mínútur frá því sem nú er,“ segir í tilkynningu sveitarstjórnar.

 

Nýtt skref í málinu

Eins og kunnugt er höfðu sveitarstjórn Reykhólahrepps og Vegagerðin áður mælt með að farin yrði svokölluð Þ-H leið en sú ákvörðun hefur mætt verulegri andspyrnu, meðal annars vegna þess að leiðin liggur um Teigsskóg sem skilgreindur er sem náttúruverndarsvæði sem nýtur verndar samkvæmt 61. grein náttúruverndarlaga, en vegagerð þar um myndi valda töluverðu raski. Óttast menn kærur verði þeirri leið haldið til streitu. Hins vegar er vegstæðið um Teigsskóg talið hagkvæmt út frá vegtæknilegu sjónarmiði. Það er því niðurstaða norsku sérfræðinganna að vegagerð um Reykhólasveit framhjá Reykhólum og um Reykjanes, yfir Þorskafjörð og til Skálaness hafi ýmsa kosti sem erfitt er að horfa framhjá. Nefna þeir að hægt er að nýta núverandi veg að hluta, telja kost að tengja þéttbýlið á Reykhólum við þjóðbraut og ekki er talið líklegt að framkvæmdir á þessari leið verði háð mati á umhverfisáhrifum. Hins vegar var á kynningarfundinum bent á möguleg áhrif t.d. á æðarvarp og skerðing á ræktarlandi yrði einhver.

 

Að ýmsu að huga

Það var Lars Peter Larsgård vegaverkfræðingur frá Multiconsulant sem hafði framsögu um niðurstöðu norsku verkfræðistofunnar. Sagði hann í upphafi máls síns frá þeim valmöguleikum sem skoðaðir hafi verið til að ákvarða hagkvæmustu kosti vegleiða miðað við umferðaröryggi, náttúruvernd og kostnað. Þannig hafi Þ-H leið verið skoðuð, jarðgangaleið með breyttri legu ganga og vegar og loks Reykhólaleiðin. Lýsti hann þeim veghönnunarstöðlum sem stuðst var við til að hámarka öryggi. Til dæmis sagði hann að leitast væri við að hafa veghalla alltaf undir 7%, að brýr væru a.m.k. 9 metra breiðar og lýsti viðmiðum um umferðarhraða og fleira til að öryggi vegfarenda væri sem best tryggt. Taka þyrfti tillit til strauma í fjörðum sem þarf að brúa, dýpt þeirra og aðstæðna. Þá þarf að taka tillit til náttúrufars, landbúnaðar og fjölmargra annarra þátta þegar stefnumótun væri unnin í vegagerð.

 

Tvær leiðir taldar ódýrastar

Í lok kynningar sinnar fór Lars Peter Larsgård yfir kostnað af fjórum mismunandi leiðum í vegagerð um Reykhólasveit. Eru þær tölur byggðar á upplýsingum um kostnað frá árinu 2015 og hafa þær ekki verið uppfærðar miðað við verðlag í dag, en engu að síður eiga þær að vera samanburðarhæfar til að meta hlutfallskostnað ólíkra leiða. Samkvæmt því er heildarkostnaður við Þ-H leið 6.578 milljarðar króna. R-leið myndi kosta litlu meira, eða 6.890 milljarðar króna. DR leið myndi kosta 9.244 milljarða og svokölluð I-leið 10.005 milljarða. Fram kom að allar þessar leiðir stytta vegalengdir milli landshluta og auka umtalsvert öryggi og veggæði. Þá var á það bent að bæta þarf núverandi veg um Reykhólasveit ef færa á svo mikla umferð um veginn framhjá Reykhólum og út á Reykjanes. Mun þá verða að hækka kostnað við R-leið um nokkur hundruð milljónir króna til að gera valkosti í vegarlagningu samanburðarhæfa við aðrar leiðir.

 

Mun tefja upphaf verks um 2-3 ár

Magnús Valur Jóhannsson, framkvæmdastjóri mannvirkjasviðs Vegagerðarinnar, ávarpaði fundargesti á Reykhólum. Fór hann í upphafi yfir það áralanga ferli sem aðdragandi að vegagerð hefur haft í Reykhólasveit. Minnti hann á að sveitarfélagið Reykhólahreppur hefði árið 2012 talið vegagerð um Teigsskóg væntlegasta, en það svo verið Skipulagsstofnun sem hafnaði því og nýtt matsferli hafi farið í gang. Benti hann á að vegagerð um Teigsskóg hefði minni umhverfisáhrif en margar aðrar leiðir sem skoðaðar hefðu verið. Benti Magnús Valur á að gott samstarf hafi alla tíð verið við sveitarfélagið, en innan þess hafi þó ekki alltaf ríkt eining um vegleiðir. Nú hafi sveitarfélagið hins vegar ákveðið að fá erlenda aðila til að skoða málið. Sagði hann að jafnvel þótt Reykhólahreppur hefði skipulagsvald í málinu kæmi Vegagerðin að endanlegri ákvörðun um veglagningu. Benti hann jafnframt á að tillögur norsku verkfræðistofunnar væri einungis frumdrög og mikil vinna ætti eftir að eiga sér stað áður en hægt væri að taka ákvörðun í málinu og í framhaldi af því ráðast í vegagerð miðað við þær tillögur. Lýsti hann efasemdum um þær kostnaðartölur sem Multicolunant hefðu sýnt og benti á að byggja þyrfti upp Reykhólaveg til að hann gæti borið þá auknu umferð sem ný vegtenging við Vestfirði hefur í för með sér. Þá upplýsti hann m.a. að Vegagerðin hér á landi beitti öðrum aðferðum við brúargerð yfir firði en Norðmennirnir mæltu með. Hér væri yfirleitt reynt að byggja brýr á þurru, en Norðmenn beittu öðrum aðferðum. Óvissan væri því mikil þrátt fyrir tillögur Norðmannanna.

„Framhald málsins verður á forræði Vegagerðarinnar,“ sagði Magnús Valur ákveðinn. „Hins vegar ef sveitarfélagið óskar eftir því að vegalagning fari um R-leið, þá tökum við vel í þær hugmyndir. Ef valið yrði að fara Þ-H leið um Teigsskóg gæti verið byrjað á framkvæmdum á næsta ári. Þessar hugmyndir um R-leið munu því tefja upphaf framkvæmda um eitt, tvö eða jafnvel þrjú ár,“ sagði Magnús Valur Jóhannsson forstöðumaður mannvirkjasviðs Vegagerðarinnar.

 

Formlegar athugasemdir Vegagerðarinnar

Síðla kvöld, í framhaldi fundarins á Reykhólum, sendu þeir G Pétur Matthíasson upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar og Magnús Valur Jóhannsson, frá sér ítarlega fréttatilkynningu þar sem Vegagerðin gerir athugasemdir í fimm liðum við skýrslu Multiconsult: „Þær athugasemdir sem Vegagerðin hefur komið á framfæri eru eftirfarandi

1. Vegagerðin er ósammála því mati Multiconsult að stytting vegalengda skipti ekki máli enda hefur auknar akstursvegalengdir í för með sér kostnað fyrir vegfarendur.

2. Multiconsult leggur til styttri jarðgöng á leið D2. Sá valkostur hefur verið til skoðunar hjá Vegagerðinni áður. Það hefur verið þróunin hérlendis að hafa gangamunna lægra yfir sjó en áður var og er þá einkum horft til þess að jarðgöngin eru hönnuð til a.m.k. 100 ára. Með lengri göngum eykst stofnkostnaður en það er talið koma til baka með ódýrari vetrarþjónustu á vegum að göngum, meira umferðaröryggi með lágum fyllingum og litlum halla utan gangamunna.

3. Í kostnaðarmati Multiconsult er gert ráð fyrir að einingaverð fyrir brúargerð sé jafnhátt hvort sem byggt er frá landi á fyllingum innar í fjörðunum eða ein stærri brú sem byggð er af sjó. Vegagerðin telur það óraunhæft en er ekki búin að leggja tölulegt mat á það.

4. Þó svo að vatnsskipti séu tryggð í 800 m langri brú yfir Þorskafjörð má búast við töluverðu rofi í sjávarbotni vegna aukins straumhraða. Ítarlegra rannsókna er þörf á botngerð til að hægt sé að fullyrða um grundunaraðstæður og það er því mat Vegagerðarinnar að mun meiri óvissa sé um kostnað við leið R. Byggir það á reynslu Vegagerðarinnar af öðrum fjarðaþverunum, s.s. í Kolgrafarfirði, Borgarfirði og Dýrafirði.

5. Það er mat Vegagerðarinnar að Reykhólasveitarvegur uppfylli ekki kröfur til stofnvega og sé ekki hæfur fyrir þá umferðaraukningu sem gert er ráð fyrir nema með töluverðri endurbyggingu og lagfæringu. Hann er tiltölulega mjór, á honum eru krappar beygjur og hæðir, lagfæra þarf hliðarsvæði og setja upp vegrið til að auka umferðaröryggi og vegurinn er alveg í ósamræmi við þann veg sem byggður hefur verið upp frá Skálanesi yfir í Vatnsfjörð og þann veg sem ráðgerður er um Dynjandisheiði og vegagerð í tengslum við Dýrafjarðargöng. Það verði því að gera ráð fyrir kostnaði við slíkar endurbætur í öllum samanburði.“

 

Næsta skref í málinu er í höndum nýrrar sveitarstjórnar í Reykhólahreppi, enda fara sveitarfélög með skipulagsvald. Eftir á að staðfesta aðalskipulag fyrir sveitarfélagið. Engu að síður bendir Magnús Valur Jóhannsson forstöðumaður mannvirkjasviðs Vegagerðarinnar á að endanleg ákvörðun um veglagningu verði þó í höndum Vegagerðarinnar. Töluverð óvissa ríkir því enn um vegagerð um Reykhólasveit.

Lars Peter Larsgård vegaverkfræðingur frá Multiconsulant hafði framsögu á fundinum. Hann er hér lengst til vinstri.

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir